Hrúturinn: Í réttar skorður

Elsku Hrúturinn minn, það er allt að falla í réttar skorður hjá þér. Og þú elskar mest af öllu skipulag, hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eður ei. Þú átt eftir að finna fyrir því hversu orðheppinn þú ert og svo ertu líka búinn að læra á það, að þegar þú ætlar að fá einhverju framgengt seturðu ljúfa orku í röddina þína.

Þú verður reyndar að vera viðbúinn því að velja og hafna og ekki taka of mikið að þér. En ef þú neyðist til að gera það, þá skaltu skrá niður hvenær þarf að gera þetta og hvenær þú þarft að klára hitt. Margir Hrútar eru að byrja á stórum verkefnum og kvíði getur læðst að þér. En sú vinnusemi sem þú sýnir mun reka á brott þann leiðindadjöful á örskömmum tíma.

Þú finnur meiri gleði og kátínu í hjartanu en þú hefur fundið fyrir síðastliðna þrjá mánuði. Þú færð þá sterku tilfinningu að sjá hvað litlir hlutir eru mikilvægir. Og þú þjálfar þig í því að hugsa ekki of langt fram í tímann, því ef þú gerir það ertu fjarverandi í nútíðinni.

Þær tilfinningar sem tengjast ástinni eflast og styrkjast og þú verður staðfastur í að vera góður við þá sem þú berð kærleika til. Og þótt þú hafir áhyggjur af peningahliðinni, þá reddast málin á síðustu mínútunum og ef þú skoðar vel þá hefurðu alltaf lent á fjórum fótum.

Þú finnur að það gefur þér svo mikla orku að vera hugrakkur og skoðaðu það líka að þú ert svo góður í að berjast fyrir aðra. Þá finnurðu líka kærleikann snerta þig svo sannarlega á svo sterkan hátt og þá líður þér vel. Og það er það eina sem við mannfólkið í raun óskum okkur.

mbl.is