Solla ætlar að dansa í gegnum veturinn

Sólveig Eiríksdóttir verður ein af þeim sem ætlar að dansa …
Sólveig Eiríksdóttir verður ein af þeim sem ætlar að dansa í þættinum, Allir geta dansað í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Eiríksdóttir eða Solla eins og hún er kölluð er frumkvöðull á sínu sviði enda búin að vera grænkeri í 40 ár. Hún heillaðist af stefnu „eftirhippaáranna“ í Kaupmannahöfn þar sem hún var í námi. Hún bjóst við að annar hver maður myndi hoppa á þennan vagn enda hollustan í fyrirrúmi. Það hefur þó ekki alveg þróast eins og hún bjóst við. Veturinn í vetur verður einstakur á margan hátt því Solla hefur ákveðið að stíga hraustlega út fyrir þægindarammann. 

„Veturinn leggst mjög vel í mig. Ég er að fara að dansa og dansa og dansa í allan vetur ásamt því að gera uppskriftir fyrir Gló. Ég lét nefnilega plata mig í að taka þátt í Allir geta dansað,“ segir Solla sprelllifandi. 

Hún hefur alltaf verið til í að fara óhefðbundnar leiðir í lífinu. Þegar hún var kornungur námsmaður í Kaupmannahöfn bjóst hún til dæmis við því að það sem er að gerast núna í grænkeraheiminum myndi gerast fyrir 35 árum eða svo. 

„Ég bjóst við að þetta myndi taka miklu miklu skemmri tíma. Ég lærði fljótt að búa til mjög bragðgóðan mat eingöngu úr jurtaríkinu og fólk var mjög áhugasamt og ég var alveg viss um að kjötlausu dögunum myndi fækka og við erum að tala um fyrir 30-35 árum,“ segir hún og bætir við: 

„Þegar maður gerist grænkeri á þeim dásamlega tíma sem kallast „eftirhippaárin“ í Kaupmannahöfn, þar sem var mikil vakning í makróbíótík, grænkerafæði og lífrænni ræktun, var ég þess fullviss að allar fjölskyldur myndu taka upp þann lífsstíl að hafa allavega 2-3 græna daga í viku. Bæði út frá heilsunni og umhverfinu. En þetta gekk ekki eins hratt fyrir sig og ég bjóst við. Þó svo að mér fyndist þetta heilbrigð skynsemi þá var það ekki alveg upp á teningnum svona almennt.“

Er samasemmerki á milli þess að lifa heilsusamlegu lífi og vera grænmetisæta?

„Það er hægt að borða bæði hollan og óhollan mat hvort heldur maður er grænkeri eða „alæta“. Við „gömlu“ grænkerarnir lærðum að nota baunir, búa til tófú og tempeh og fylgdum gjarnan einhverri hugmyndafræði sem átti rætur að rekja til heilsusamlegs lífernis. Við spáðum í eldunaraðferðir og hvernig maturinn væri ræktaður og lífræn ræktun var í hávegum höfð hjá okkur, því hún var umhverfisvæn. Skyndibitinn á þessum tímum byggðist á mat úr dýraríkinu og voru eldunaraðferðirnar ansi „sveittar“, mikið djúpsteikt og steikt úr miklu smjörlíki. Þetta átti sinn þátt í að allt sem var kjötlaust flokkaðist undir hollustu og var gjarnan uppnefnt gras eða arfi og njóli. Í dag er hægt að fá allan skyndibita úr jurtaríkinu með jurtapróteini og fleiru, eldaðan á sama hátt og orginal sveitta útgáfan,“ segir hún.  

Hvað geta grænmetisætur gert til að auka hollustu sína?

„Það einfaldasta er líklega að borða meira grænt og vanda matreiðsluaðferðirnar. Mér hefur alltaf þótt góð hugmynd að horfa til matarmenningar hjá þjóðum sem hafa verið að elda úr grænmeti í árhundruð. Indversk matargerð er full af bragðgóðum og hollum grænmetisréttum og það sama má segja um mat frá Grikklandi, Mexíkó, Miðjarðarhafinu og víðar. Þangað má sækja innblástur og uppskriftir.“ 

Sumir segja að það að vera vegan sé bara leið gikkja þessa heims til að borða bara brauð út í eitt. Er eitthvað til í því?

„Veganismi er mjög gamall í sjálfu sér og samkvæmt Wikipedia eru til heimildir um mann sem fæddist 973 á Sýrlandi og hafði veganhugsjónir í hávegum, þ.e. að borða ekki dýr eða afurðir frá þeim. Svo veganismi er ekki nýr af nálinni. En hann endurspeglar svolítið tímann sem við lifum á. Núna þegar plánetunni stafar ógn af umhverfisáhrifunum m.a. út frá kjötneyslu, og meira gagnsæi er komið í meðferð dýra, sem oft er mjög slæm, þá er sífellt yngra fólk sem aðhyllist veganhugmyndafræðina út frá dýra- og umhverfisvernd en ekki endilega hollustu. Þetta fólk er margt hvað alið upp á skyndibitaöldinni og gerir þar af leiðandi kröfur um að geta fengið matinn sem það elskaði en bara lausan við dýraafurðir. En þau eru í alvörunni áhyggjufull út af þróuninni í umhverfis- og loftlagsmálum, áhyggjufull fyrir hönd barnanna sinna og barnabarnanna,“ segir hún. 

Solla hefur lengi verið talsmaður þess að fólk gefi börnunum sínum meira grænmeti og segir að það skipti máli að byrja snemma. Nú er hún ásamt fleirum búin að enduropna Gló við Engjateig með það að markmiði að gera staðinn fjölskylduvænni. Þar geta börnin fengið spennandi grænmetisfæði og lagt verður upp með gott aðgengi fyrir mömmur með barnavagna. 

„Ég var dugleg að búa til smoothie með berjum og grænmeti til að leyfa bragðlaukunum að venjast bragðinu. Leyfa börnum að leika með matinn til dæmis með því að stinga út hjörtu, stjörnur, blóm og alls konar skemmtileg form úr þunnum sneiðum af rófum, gulrótum, rauðrófum og hnúðkáli og borða þetta svo.“ 

Upp á síðkastið er búið að rífast mikið um það hvort það sé raunhæft að bæta meira grænmeti inn í skólamatinn. Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst mjög eðlileg þróun og algjörlega tímabært að auka úrvalið af góðum grænmetisréttum í skólamötuneytum. í dag er bæði þekking til staðar og hráefnið til að gera matinn mjög girnilegan, næringarríkan og bragðgóðan. Ásamt þeirri vitneskju um jákvæðu áhrifin á jörðina sem fylgir því að auka grænmetisneyslu og draga úr kjötneyslu. Margrét Pála hjá Hjallastefnunni hefur verið að gera þetta í mörg ár.“

Hún er lifandi sönnun þess að grænmetisfæði drepur engan.
Hún er lifandi sönnun þess að grænmetisfæði drepur engan. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is