Nýskilin með nýjan sjónvarpsþátt

Björg segir að henni fari alltaf að leiðast ef það …
Björg segir að henni fari alltaf að leiðast ef það er ekki nóg að gera hjá henni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir stendur á krossgötum í lífi sínu þessa dagana. Hún er nýskilin við eiginmann sinn og á kafi í vinnu en í kvöld verður fyrsti þátturinn af Kappsmáli sýndur á RÚV. Þeir sem þekkja Björgu vita að hún er engri lík en hún hefur alltaf verið með stóra drauma og leiðist hræðilega ef það er ekki allt í gangi hjá henni. Móðir hennar segir að hún sé alltaf eins og vél sem er aðeins of hátt stillt. 

„Ef ég byrja á Kappsmáli, þá er um að ræða nýjan skemmtiþátt um íslenskt mál. RÚV og framleiðslufyrirtækið Skot standa að þáttunum og byrjaði þróunin fyrir alvöru fyrir rúmu ári. Afraksturinn sjáum við svo klukkan 19:45 í kvöld á RÚV þegar fjórir keppendur berjast í gegnum alls kyns sérhannaðar þrautir sem tengjast tungumálinu. Við skemmtum okkur konunglega í ferlinu og upptökum, valin manneskja var í hverju hlutverki og við hlökkum til að sýna þjóðinni afraksturinn. Vonandi fíla Íslendingar Kappsmál.

Ég stend líka á annars konar tímamótum en ég skildi við eiginmann minn til síðustu ára í sumar. Það er óhætt að segja að það breyti miklu. Við vorum góð saman að mörgu leyti en að öðru leyti ekki. Manneskja er víst heildarpakki, það er ekki hægt að pikka út það sem manni líst best á og loka augunum fyrir hinu,“ segir Björg.

Björg er nýkomin heim frá Bretlandi þar sem hún fór í langt og gott Eat Pray Love-ferðalag eins og konur gera gjarnan þegar þær standa á krossgötum. Þegar hún spurð hvernig hún komi undan sumrinu kvartar hún ekki. 

„Ég er brött. Fór í langt og gott Eat Pray Love-ferðalag um suðurhluta Bretlands núna í ágúst. Var að hluta til ein á ferð og síðan með vinum og fjölskyldu sem ég er svo heppin að eiga úti um allt. Heimsótti meðal annars London, Bath, Brighton, Windsor, Bournemouth og Cambridge. Allt dásamlegir staðir, stútfullir af áhugaverðri menningu, sögu og skemmtilegu fólki. Ferðinni lauk síðan í London en besta vinkona mín tók ekki í mál að ég endaði hana ein og flaug út til mín síðustu fjóra dagana og við áttum þar dásamlegt dömufrí!“

Björg er búin að vinna í fjölmiðlum í áratug og hefur komið víða við á ferli sínum. Hún segist hafa lært mest af því að vera í beinni útsendingu á Rás 2.   

„Ég hef alltaf sótt í að vinna við að skrifa eða vinna með tungumálið á einhvern hátt þannig að blaðamennskan var dálítið augljós vettvangur. Hóf feril minn á 24Stundum, síðan Blaðinu, vefmiðlinum Pressunni en fékk síðan ráðningu sem sumarafleysingamaður á fréttastofu RÚV fyrir sex árum. Ég átti nú líklega ekki heima á fréttastofunni en ég fann strax að á RÚV voru tækifæri sem ég var spennt fyrir. Þegar ég fékk tilboð um að vera einn af umsjónarmönnum Síðdegisútvarpsins á Rás 2 hoppaði ég á það og segi það fullum fetum að þaðan hef ég bestu vinnureynsluna á mínum ferli. Það er rosaleg þjálfun fólgin í því að vera í beinni útsendingu tvo tíma á dag, þurfa að finna nokkur fersk efni daglega, skemmtilega viðmælendur, eiga síðan kannski slæman dag og vera engan veginn upp á sitt besta – en þurfa bara að mæta á morgun og gera þetta allt aftur. Þar lærði ég að vera í beinni útsendingu og eins og Broddi segir alltaf við mig: „Björg mín, láta liggja vel á sér,“ sem er mjög gott ráð fyrir allar beinar útsendingar.

Hér er Björg ásamt Ara og Þórunni Clausen í Söngvakeppninni …
Hér er Björg ásamt Ara og Þórunni Clausen í Söngvakeppninni í fyrra. mbl.is/Eggert

Fyrir tveimur árum fékk ég svo símhringingu og bauðst að vera kynnir í Græna herberginu í Söngvakeppninni, sem eru risaútsendingar og vinsælasta sjónvarpsefni landsins, og gat auðvitað ekki sagt annað en já, takk. Ég verð að viðurkenna að söngvakeppnisútsendingar standa upp úr. Það er eitthvert brjálæðislegt kikk fólgið í því að vera í beinni og vita það, að þú færð bara eitt tækifæri til að koma hlutunum þokkalega frá þér. Mér finnst það góð tilfinning.“

Í gegnum Söngvakeppnina kynntist Björg Gísla Marteini sem er hálfgerð þjóðareign enda búinn að vinna lengi á RÚV. Fyrir ári byrjuðu þau saman með útvarpsþáttinn Morgunkaffið á Rás 2 sem er á dagskrá á laugardagsmorgnum. 

„Á þeim tíma höfðu leiðir okkar Gísla Marteins legið saman gegnum Söngvakeppnina einmitt. Þegar ég var búin að þekkja hann í svona klukkutíma vissi ég að þessi maður yrði nú líklega bæði vinur minn og ráðgjafi til framtíðar. Á sama tíma var ég í viðræðum við yfirmann minn á Rás 2 um að færa mig yfir í þátt á laugardagsmorgnum, en okkur vantaði karlkyns stjórnanda með mér. Og af því að Gísli Marteinn var þarna orðinn ráðgjafi minn heyrði ég í honum og spurði hvort honum dytti einhverjir skemmtilegir menn í hug. Hann sagði á móti, svona þykjustumóðgaður: „Bíddu, ætlarðu ekkert að biðja mig að vera með þér? Ég hef mikinn áhuga á íslenskri tónlist!“ Mér fannst þetta mjög fyndið af því í sannleika sagt hafði mér ekki einu sinni dottið í hug að spyrja hann, ég meina maðurinn er sjónvarpsstjarna! En svo keyrðum við á þetta og höfum skemmt okkur stórkostlega saman og lagt allan okkar metnað í að búa til skemmtilega útvarpsþætti fyrir þjóðina. Gísli er afbragðsmaður, til dæmis hafði hann orð á því að við ættum að fara saman á samningafund til þess að semja um kaup og kjör fyrir þáttinn, og eðlilega vera á sama taxta, því við erum jú saman í þessu. Sem við gerðum. Svo segir hann mér reglulega að grípa meira fram í fyrir sér, það sé miklu skárra ef ég gríp fram í fyrir honum en ef hann grípur fram í fyrir mér.“

Björg Magnúsdóttir er með mörg járn í eldinum en hún …
Björg Magnúsdóttir er með mörg járn í eldinum en hún er ein af handritshöfundum Ráðherrans og svo byrjar Kappsmál í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig er öðruvísi að vinna í útvarpi en sjónvarpi?

„Í útvarpi virkar tími öðruvísi. Þar gefst meira svigrúm fyrir lengri viðtöl, alls konar ófókuserað spjall, jafnvel mistök og „banter“. Í sjónvarpi er hver einasta sekúnda gulls ígildi og þú þarft að pródúsera nákvæmlega hvað þú ætlar að segja, og segja það í eins stuttu en flottu máli og hægt er. Ef sjónvarpsefni virkar fyrirhafnarlaust þýðir það bara að á bak við efnið er gríðarleg undirbúningsvinna. Svo er auðvitað kosturinn við útvarp að það er hægt að mæta á náttfötunum með skítugt hár og enginn gerir athugasemd við það. Bæði er betra,“ segir hún og hlær.

Björg er ein af þeim sem skrifuðu handritið af Ráðherranum sem fer í sýningar á RÚV á næsta ári en þættirnir fjalla um geðveikan forsætisráðherra Íslands sem Ólafur Darri leikur. Þegar Björg er spurð hvernig þetta verkefni hafi orðið til og hvernig svona handritsvinna fer fram segist hún aldrei hefðu ímyndað sér að þetta gæti verið svona mikil vinna. 

„Að skrifa sjónvarpsþátt er svona þúsund sinnum flóknara en ég reiknaði með þegar ferlið hófst, fyrir sirka sex árum. Þá hafði ég gefið út tvær bækur, bæði hér á Íslandi og í Þýskalandi, og var forfallin yfir dönsku stjórnmálaþáttunum Borgen með Birgitte Nyborg í broddi fylkingar. Ég fann fyrir þeirri tilfinningu að það væri mikill efniviður í íslenskri stjórnmálasögu, menningu og þjóðlífi almennt, til að búa til slíka sögu sem gerist hér. En það er bara fyrsta skrefið af milljón að vera með ramma að hugmynd sem gæti virkað. Þegar ramminn er kominn þarf að búa til spennandi karaktera, fjölskyldur, sambönd og alls konar flækjur. Þú verður sem sagt að vera með áhugaverðar persónur, sem lenda síðan í öllu því hræðilegasta og erfiðasta sem þú getur látið þér detta í hug. Það finnst nefnilega engum gaman að horfa á fólk sem allt gengur upp hjá. Þannig að í þessu gildir að sleppa aldrei góðu veseni, eins og góður maður sagði við mig.

Ráðherrann kláraðist í tökum í sumar sem er einstaklega ánægjulegt og ferlið gekk vel sem við erum auðvitað mjög þakklát fyrir. Og það sem er nýtt við okkar seríu er að þetta er fyrsta íslenska sjónvarpsserían um forsætisráðherra Íslands. RÚV mun sýna þættina eftir ár og svo fara þeir á ferðalög um heiminn, enda hafa þeir verið seldir til fleiri landa.“

Þegar hún er spurð hvað drífi hana áfram segir hún að móðir hennar hafi skilgreint drifkraftinn á frekar spaugilegan hátt. 

„Ég er frekar heppin með það að ég er með fínan drifkraft innra með mér. Mamma hefur alltaf lýst þessu eins og ég sé vél sem er aðeins of hátt stillt, sem ég geri engar athugasemdir við. Hún hittir þarna naglann á höfuðið eins og oft áður. Þannig er ég bara og það hefur sannarlega komið mér bæði vel og illa í lífinu.“

Björg er alin upp í Hafnarfirði. Þegar hún er spurð hvaða drauma hún hafi verið með sem krakki kemur í ljós að henni leiddist alltaf hræðilega ef það var ekkert í gangi. 

„Mig hefur alltaf langað að gera eitthvað stórt og spennandi, mér byrjar bara að leiðast hryllilega ef það er ekkert í gangi. Ég hef tamið mér að vera létt í lund og heiðarleg, mér finnst það vera málið og fólk tekur líka frekar vel í það. Eitt af því fáa sem ég trúi á í lífinu er vinnusemi og metnaður og elska þá eiginleika í fólki. Svo hjálpar til ef það eru einhverjir hæfileikar til staðar.“

Þegar hún er spurð út í plön vetrarins kemur í ljós að henni mun líklega ekki leiðast neitt hræðilega mikið. 

„Ég hugsa að veturinn verði bara geggjaður. Við Gísli Marteinn ætlum að vakna með þjóðinni á laugardagsmorgnum á Rás 2 og ég verð í fleiri skemmtilegum verkefnum á RÚV. Þessar vikurnar er ég á fullu í endurskrifum á nýrri sjónvarpsþáttaseríu fyrir Sagafilm, sem fer vonandi í tökur í vor,“ segir hún og bætir við: 

„Svo skellti ég mér á athafnastjóranámskeið hjá Siðmennt fyrir rúmu ári. Það er mjög gefandi starf sem mér þykir mikill heiður að sinna. Ég legg fyrst og fremst áherslu á að hlusta á fólkið, sem treystir mér fyrir hjónavígslunni sinni, og smíða athöfnina alltaf í nánu samráði við þau. En oftast eru athafnir hjá mér bara nokkuð léttar og smá væmnar. Það er fín blanda. Hljómar kannski undarlega frá nýskilinni konu en ég trúi svo sannarlega á ástina og bæði veit að hún er til og er eitt það fallegasta í heimi.“

Hvar verður þú eftir tíu ár?

„Vonandi í góðum tengslum við mína nánustu, fjölskyldu, vini og að sinna skemmtilegum verkefnum. Annaðhvort verð ég með eiginmanni númer tvö eða þrjú en kannski verð ég bara búin að ættleiða barn, alein, úr sænskum sæðisbanka. Held það sé hægt að gera margt vitlausara en einmitt það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál