Upplifðu draumabrúðkaupið í miðjum faraldri

Heiðrún Hafliðadóttir flugfreyja og Magnús Norðdahl tölvunarfræðingur fengu Hótel Búðir …
Heiðrún Hafliðadóttir flugfreyja og Magnús Norðdahl tölvunarfræðingur fengu Hótel Búðir út af fyrir sig vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Heiðrún Hafliðadóttir flugfreyja og Magnús Norðdahl tölvunarfræðingur fengu Hótel Búðir út af fyrir sig vegna kórónuveirunnar. Þau upplifðu lítið draumabrúðkaup og eiga nú fallegar minningar sem ylja. Þau giftu sig á Búðum 20. maí í fyrra.

Þau voru glæsileg á brúðkaupsdaginn. Hún var í kjól sem var keyptur í Reformation í San Francisco og hann í jakkafötum úr Suitup.

„Athöfin var falleg og fór fram í Búðakirkju. Kirkjan er lítil en var fullkomin fyrir gestafjöldann okkar. Við ákváðum í samráði við prestinn að hafa athöfnina stutta og kannski smá óhefðbundna þar sem við stóðum allan tímann. Við fengum fjölskylduvin sem er mjög fær á gítar til að spila í athöfninni, sem léði henni rómantískari blæ.

Sonur okkar var hringaberi og var mjög ánægður með sitt hlutverk og stóð sig mjög vel. Dóttir okkar, sem var þá eins árs, var einnig með alls konar skemmtiatriði meðan á athöfninni stóð,“ segja þau.

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Traust og góð samskipti lykilatriði

Eftir athöfnina var fordrykkur á Bárðarstofu, barnum á Hótel Búðum, þar sem boðið var upp á freyðivín og súkkulaðihúðuð jarðarber.

„Veislan var svo á veitingastaðnum á hótelinu þar sem borðunum hafði verið raðað upp í u sem var fullkomið fyrir okkar veislu og skapaði skemmtilega stemningu.

Tengdamamma, mágkona, mamma og systir mín voru búnar að skreyta veitingasalinn á Hótel Búðum svo fallega og með því bjuggu þær til rómantíska og hátíðlega stemmingu. Ég myndi segja að skreytingarnar hafi „gert“ veisluna okkar. Borðin voru skreytt með alls konar hvítum blómum og grænum eucalyptus og fullt af gylltum „vintage“-kertastjökum sem passaði fullkomlega inn í umhverfið á Búðum. Ég vissi að salurinn yrði mjög fallegur en ég viðurkenni að ég klökknaði þegar við gengum inn í salinn eftir fordrykkinn og ég sá hvað hann var fullkominn. Umgjörðin og skreytingarnar slógu tóninn fyrir fallega og rómantíska brúðkaupsveislu í sveitinni. Við áttum yndislegt kvöld með okkar nánustu fjölskyldu,“ segir Heiðrún.

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Getið þið sagt mér eitthvað um veitingarnar og brúðkaupstertuna?

„Hótel Búðir sá um allar veitingar fyrir okkur. Við fengum sendan matseðil frá þeim og gátum valið saman þriggja rétta matseðil bæði með kjöti og svo hins vegar grænmetismatseðil fyrir grænmetisætur. Einnig voru nokkur börn meðal veislugesta og fengu þau sérbarnamatseðil. Maturinn var frábær og höfðu allir gestir orð á því í veislunni.

Þar sem við skipulögðum brúðkaupið með stuttum fyrirvara klikkaði ég á að panta brúðartertuna tímanlega, mig langaði að hafa kransaköku en vissi ekki að hana þyrfi að panta með minnst viku fyrirvara svo það var smáklúður hjá mér,“ segir hún.

Hvað með hringana?

„Ég ákvað að nota trúlofunarhringinn minn einnig sem giftingarhring og færði hann aðeins yfir á vinstri hönd en Magnús valdi sér giftingarhring frá Aurum,“ segir Heiðrún.

Hver er grunnurinn að góðu sambandi að ykkar mati?

„Við teljum að grunnurinn að okkar sambandi sé gagnkvæm virðing, traust og góð samskipti. Við höfum líka mikinn húmor hvort fyrir öðru sem hefur góð áhrif á sambandið,“ segja þau.

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Fengu Hótel Búðir út af fyrir sig

Hvaða áhrif hafði kórónuveiran á brúðkaupið?

„Hún hafði mikil áhrif á brúðkaupið okkar. Við ætluðum upprunalega að gifta okkur hjá sýslumanni á þessum degi og vorum svo búin að bóka draumabrúðkaupsferðina okkar daginn eftir. Við héldum lengi í vonina um að við gætum farið þó svo að við vissum að það væri mjög ólíklegt. Þegar ferðinni var aflýst ákváðum við samt sem áður að halda okkur við dagsetninguna og ákváðum að það gæti verið gaman að halda litla veislu eða gera eitthvað sérstakt í tilefni dagsins. Við höfðum skoðað að halda brúðkaupið á Búðum áður því okkur finnst það einstakur staður og því ákváðum við að heyra í þeim hvort það væri möguleiki þrátt fyrir að það væru 50 manna samkomutakmörk.

Það er eiginlega ástandinu að þakka að draumabrúðkaupið okkar varð að veruleika.

Hótel Búðir var opið, það voru laus herbergi og gestafjöldinn og starfsfólk voru undir 50 manns. Ljósmyndarinn var sem betur fer laus og í þokkabót voru engir ferðamenn á svæðinu svo við fengum að hafa Búðir út af fyrir okkur þennan dag.

Einu neikvæðu áhrifin sem veiran hafði á brúðkaupsdaginn var að bróðir Magnúsar og systir mín voru ekki viðstödd þar sem þau búa erlendis. Það hefði líka verið mjög gaman að geta boðið fleirum. Eins ef við hefðum ekki þurft að fresta brúðkaupsferðinni en við förum bara í hana þegar tækifæri gefst.“

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Þau tóku sér þrjár vikur í að undirbúa brúðkaupið.

„Ég hafði samband við Weroniku á Hótel Búðum og ég er nokkuð viss um að þetta hefði ekki tekist svona vel án hennar. Við ákváðum matseðil, vínseðil, uppröðun, fordrykk og fleira í samráði við hana og hún sá um að öll herbergi væru bókuð og þetta gengi allt eins og í sögu, sem það gerði.

Við höfðum samband við hann Laimonas hjá Sunday White Studio til að taka myndir á brúðkaupsdaginn og sem betur fer var hann laus og gat tekið ljósmyndir af deginum,“ segir Heiðrún.

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding

Kom á óvart hversu vel gekk að undirbúa

„Ég er mjög heppin því tengdamamma mín og mágkona eiga Blómahönnun sem sérhæfir sig í blómaskreytingum og þá sérstaklega brúðkaupum sem eru hvert öðru fallegra. Tengdamamma tók þátt í því að skreyta brúðkaup Viktoríu Svíaprinsessu og Daníels svo ég vissi að skreytingarnar og blómin væru í góðum höndum. Ég sýndi þeim nokkrar myndir af Pinterest með hugmyndum sem ég var með og treysti þeim alfarið fyrir umgjörðinni enda var þetta allt svo miklu fallegra en mig hafði deymt um.

Þær meira að segja pöntuðu ákveðin blóm að utan sem mig langaði að hafa í brúðarvendinum mínum til að gera hann ennþá sérstakari,“ segir Heiðrún.

Eigið þið gott ráð fyrir pör sem eru í brúðkaupshugleiðingum í dag?

„Við myndum ráðleggja brúðhjónum að fá sér ljósmyndara, þau munu ekki sjá eftir því.

Okkur þykir mjög vænt um ljósmyndirnar frá brúðkaupsdeginum okkar. Þetta var sérstakur dagur í okkar lífi og Laimonas náði að fanga fullt af dýrmætum augnablikum.

Það kom á óvart hvað allt gekk vel upp og hvað það gekk vel að undirbúa brúðkaupið með svona litlum fyrirvara,“ segja þau.

Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding
Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding
Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding
Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding
Ljósmynd/Laimonas Sunday & White Wedding
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál