Hörður Björgvin vel múraður eftir ferilinn

Hörður Björgvin Magnússon ætlar að búa í Fossvoginum í framtíðinni.
Hörður Björgvin Magnússon ætlar að búa í Fossvoginum í framtíðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Hörður Björgvin Magnússon býr í Moskvu í Rússlandi ásamt kærustu sinni Móeiði Lárusdóttur. Hann ræddi við Helga Jean Claessen og Hjálm­ar Örn Jó­hanns­sonum um fótbotlann og lífið í kringum atvinnumannaferilinn í nýjasta þættinum af Hæ hæ: Ævin­týri Helga og Hjálm­ars. 

Hörður Björgvin er fæddur árið 1993 og spilar með CSKA Moskva. „Ég er kominn á góðan aldur í boltanum, ég á ekkert rosa mikið eftir. Ég er búinn að fjárfesta í mörgu. Peningurinn er vel steyptur hérna á Íslandi,“ sagði Hörður þegar hann var spurður út í fjármálin. 

„Þú ert múraður,“ sagði Helgi. „Ég er múraður eftir ferilinn,“ játaði Hörður Björgvin. Hörður sagði menn byrja að huga að fjárfestingu þegar innkoman verður góð. „Jæja, ég þarf að fara kaupa mér eitthvað. Ég þarf að fara kaupa mér íbúð,“ sagði Hörður Björgvin.

Hörður Björgvin hefur verið í sambandi með Móeiði kærustu sinni í átta ár og saman eiga þau eitt barn. „Við byrjuðum saman þegar ég var á Ítalíu,“ sagði Hörður. Í dag styður hún við hann og ferilinn hans. 

Knattspyrnumaðurinn keypti hús í Fossvoginum í vetur af knattspyrnumanninum Eiði Smára Guðjonshen og fyrrverandi eiginkonu hans, Ragnhildi Sveinsdóttur. Hann kallar hverfið „Beverly Hills Íslands“. „Ég er búinn að kaupa hús þar. Ég á bara eftir að gera það aðeins til,“ sagði Hörður Björgvin sem sagðist ætla búa í húsinu í framtíðinni.

Þátt­inn má nálg­ast á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um og á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is