„Ég verð 65 ára í mars og ætla að hætta 1. apríl“

Nanna Rögnvaldar.
Nanna Rögnvaldar.

Nanna Rögnvaldardóttir verður utan landsteinanna um jólin. Hún er góð í að gera hollan mat fyrir einn og segir jólin í sveitinni engu öðru lík. Þegar börnin hennar voru lítil og vildu gefa móður sinni gjöf bað hún vanalega um frið á jörð eða gjöf sem kæmi öðru fólki vel á jólunum.

Þessi árstími er alltaf mjög annasamur í bókaútgáfu. Á ritstjórn Forlagsins þar sem Nanna Rögnvaldardóttir vinnur er búið að senda allt í prent og er nú byrjað að undirbúa næsta ár í heldur rólegra vinnuumhverfi.

„Sjálf er ég svo að búa mig undir starfslok. Ég ætla að hætta að vinna í vor, eða að minnsta kosti að vinna fasta vinnu. Ég held nú örugglega áfram að dunda mér við eitthvað bókatengt áfram,“ segir Nanna sem hefur nýverið gefið út bókina Borð fyrir einn – allan ársins hring.

„Ég elda oftast fyrir mig eina þótt bæði fjölskyldan og aðrir komi oft í mat og fannst mér kominn tími til að gera bók sem tæki mið af því. Það eru líka sífellt fleiri sem búa einir en samt eru uppskriftir yfirleitt miðaðar við fjölskyldur, gjarna ætlaðar fyrir fjóra. Ég reyndi að hafa í huga bæði fólk sem er byrjendur í eldhúsinu, fólk sem hefur lengi eldað ofan í sig eitt en vantar hugmyndir og ekki síst fólk sem er vant að elda ofan í fjölskyldur en er allt í einu eitt síns liðs og kann ekki að elda minni skammta.“

Hefur verið að minnka sykurinn í gegnum árin

Nanna segir bókin á vissan hátt kórónuveiru-bókina sína því að í fyrra hafi hún eldað óvenjulega mikið af einbúamat. Hvort sem hún var í einangrun eða ekki. Eins hefur Nanna verið að minnka sykurinn í mataruppskriftunum sínum.

„Ég var farin að draga dálítið úr sykurnotkun í uppskriftum fyrir löngu en fyrir nokkrum árum var ég komin með forstigseinkenni – eða ég var eiginlega komin með sykursýki – og þá ákvað ég að snúa alveg við blaðinu til að reyna að slá henni á frest. Ég tók út allan sykur nema í formi ávaxta. Það er auðvitað sykur líka en ég ákvað að nota þá meðal annars til að venja mig smátt og smátt af sykurlöngun. Ég vildi ekki nota sætuefni. Það gekk vel og ég fór að gera alls konar tilraunir og gaf á endanum út bók með ýmsum af uppskriftunum mínum. Ég hef haldið tilraununum áfram. Ég vissi alltaf að ég hefði bara fengið frest; núna er ég komin með sykursýki sem ég get skrifað á óhefta sykurneyslu fyrri ára. Svo að ég held bara sykurlausu tilraununum áfram.“

Hvernig verða jólin þín á þessu ári?

„Ég verð ekki á landinu og hef ekki hugmynd um hvernig þau verða. Reyndar held ég eiginlega ekki jól lengur en það er búið að vera markmið hjá mér í mörg ár að upplifa jól í mismunandi löndum, frá ólíkum hliðum.“

Ákvað að vera ein á aðfangadag í fyrra

Hvað ætlarðu að borða á jólunum?

„Ég veit ekkert hvað ég fæ í jólamatinn í ár. En í fyrra fór ég náttúrlega ekkert og ákvað þá að prófa að vera alein á aðfangadagskvöld. Ég komst upp með það af því að börnin mín þekkja sérvitru móður sína svo vel. Ég eldaði mér fimm rétta máltíð. Fyrsti rétturinn var reyktur makríll á tvo vegu með rauðum perum og sinnepssósu, svo var ég með kryddjurta- og rósapiparsgrafna rjúpubringu með berjum og fíkjubalsamediki, þá var ég með risahörpuskel með grænum baunum, sinnepskáli og kryddjurtaolíu. Aðalrétturinn var krónhjartarlund krydduð með langpipar og rósmaríni, með þurrkuðum rauðrófuflögum og nípustöppu kryddaðri með aleppo-pipar og á eftir fékk ég mér svo vanilludöðluís, án viðbætts sykurs, með te- og appelsínulegnum sveskjum. Ég held ég myndi ekki nenna að elda svona jólamáltíð ofan í fjölda manns. Annað mál með sjálfa mig, það finnst mér gaman.“

Ertu búin að ákveða hvað þú ætlar að lesa um jólin?

„Ég er sílesandi í vinnunni allt árið og svo les ég matreiðslubækur og fleira heima hjá mér. Svo að ég kýs oft að eyða jólunum í langar gönguferðir og setur á kaffihúsum – ekki þegar ég er hér heima þó – og les svo oft einhverjar fantasíubókmenntir eða glæpasögur á kvöldin. Ætli það verði ekki líka þannig núna?“

Finnur aldrei sömu jólastemninguna í þéttbýli

Fyrir marga snúast jólin um mat, aðrir elska tónleika um jólin. Nanna tengir bernskujólin fyrst og fremst við ljósin sem skinu gegnum kolsvart skammdegismyrkrið í sveitinni.

„Ég finn aldrei sömu jólastemningu í þéttbýli. Núna eru jólin friður og ró, hvar í heiminum sem ég er, blanda af einveru og samveru. Þótt ég kjósi helst að vera ein í útlöndum um jólin nýt ég þess að vera með fjölskyldunni áður en ég fer út og þegar ég er komin heim. Og jú, þar kemur maturinn auðvitað inn líka.“

Áttu ráð fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á jólastressinu, þá sem vilja gera eitthvað með börnunum sínum um jólin, en einnig bara að slaka á og hafa gaman?

„Bara að láta ekki ytri umgjörðina spilla gleðinni eða hefta sig. Jólahefðir geta verið frábærar, jólakvaðir ekki. Það er afskaplega fátt sem maður „þarf“ að gera fyrir jólin, þau koma þótt maður baki ekki einhverja tiltekna köku eða sleppi því að fara á jólatónleika eða skreyti ekki hvert einasta horn í íbúðinni og hvert tré í garðinum.“

Hvað hefur komið þér helst á óvart við sykurlausan mat?

„Hvað sykurinn felur sig ótrúlega víða og undir mörgum nöfnum í tilbúnum vörum og hvað er auðvelt að sleppa honum, minnka hann eða nota eitthvað annað í staðinn þegar maður býr matinn til sjálfur.“

Ertu mikið fyrir að elda þegar þú kemur heim úr vinnunni?

„Já, ég geri það nú oftast nær, mér finnst bara svo gaman að því. En stundum fæ ég mér bara einfalt salat eða góða brauðsneið og það er einmitt kafli í nýju bókinni sem heitir Ég fæ mér bara brauðsneið og er með fullt af hugmyndum að gómsætu og girnilegu brauði með áleggi sem ekki er þó mikil fyrirhöfn að útbúa.“

Búin að vera í sama bransa í rúma þrjá áratugi

Hvernig er að starfa sem ritstjóri hjá Forlaginu?

„Það er afskaplega gott starf að flestu leyti. Ég er eiginlega búin að vera í þessum bransa í 35 ár – var reyndar upphaflega ráðin til Iðunnar 1986 til að svara í síma og skrifa út reikninga. Það hefur margt gerst á þeim tíma og ansi margar bækur sem ég hef eitthvað komið nálægt. En nú finnst mér þetta bara orðið gott. Ég verð 65 ára í mars og ætla að hætta 1. apríl.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem ganga með bók í maganum?

„Ef það er matreiðslubók þá er ekki nóg að mæta til útgefandans eða skrifa honum og segjast vera með frábæra hugmynd að bók og fullt af æðislegum uppskriftum. Það getur vel verið rétt en það er um að gera að hafa sem mest til að sýna. Ekki bara lista yfir uppskriftir sem þú ætlar að hafa, vertu með margar uppskriftir tilbúnar svo að útgefandinn geti gert sér góða hugmynd um verkið. Við höfum oft fengið til okkar fólk sem er með bókarhugmynd sem okkur líst vel á, við segjum fólki að skila okkur inn sem dæmi einum kafla með tilbúnum uppskriftum og jafnframt góðri lýsingu á öðru efni – og svo heyrist aldrei neitt meira, kannski vegna þess að fólk gerir sér grein fyrir að hugmyndin ein er ekki nóg, öll vinnan er eftir. Þetta gildir auðvitað um allar bækur.“

Hver er besta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

„Þegar börnin mín spurðu hvað ég vildi í jólagjöf svaraði ég alltaf: Frið á jörð. Og þau sögðu æi mamma, ekki vera svona erfið. Og þá bað ég þau um að gefa mér ekkert, nema ég þigg það sem kemur öðrum til góða, eins og geit í Eþíópíu eða brunn í Kenía eða eitthvað slíkt. Mér þykir vænt um það. Og ég þigg myndir af barnabörnunum og langömmubarninu. En þegar ég hugsa til baka var besta gjöfin kannski brúðuhúsið sem við Gunna systir fengum þegar við vorum litlar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál