Auður segir Já við öllu og er bálskotin í lífinu og ástinni

Auður Jónsdóttir er komin í uppistandshóp.
Auður Jónsdóttir er komin í uppistandshóp. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir hefur í nægu að snúast þessa dagana. Í kvöld er kvikmyndin Skjálfti frumsýnd en hún er gerð upp úr bók hennar Stóri skjálfti. Auk þess er hún komin í uppistandshóp þrátt fyrir að vera eiginlega bannað það af frænda sínum. 

„Ég kem vel undan vetri, bálskotin í lífinu og ástinni og öllu því. Vorfiðringur í manni. Allt í einu er svo mikið að gerast. Svo margir að starta einhverju eða á leiðinni eitthvert. Eða að frumsýna! Síðustu daga hef ég verið með hugann við frumsýninguna á Skjálfta, sem er byggð á bók eftir mig, og ofurhuginn Tinna Hrafnsdóttir gerði. Hún verður loksins frumsýnd á Íslandi í næstu viku, eftir síendurteknar kóvid-tafir. Það er svo spennandi enda hefur myndin fengið sérstaklega góðar viðtökur í útlöndum. Loksins er fólk aftur að fjölmenna í bíó, í leikhús, á tónleika og uppistand. Svo ég bara segi já við öllu, hvort sem það er að sjá eitthvað eða gera eitthvað. Ég sagði strax já þegar mér var boðið að vera í hópi með þremur þaulreyndum uppistandskonum; þeim Hildi Birnu Gunnarsdóttur, verkstjóra hjá eldvarnamiðstöðinni, Kristínu Maríu Gunnarsdóttir lögfræðingi og Lovísu Láru kvikmyndagerðarkonu. Þær höfðu áður verið á öðrum vettvangi í uppistandinu en við þessa sameiningu varð til hópurinn Kitl. Svo ég er að semja uppistand því við ætlum að stíga á stokk á Kex, að kvöldi 31. mars og byrjaðar að selja miða á TIX. Það verður söguleg fyrsta frumsýning hópsins. Og kokkteilatilboð á barnum, bæði fyrir þá sem drekka alkóhól og líka hina. Fyndnasta vinkona mín, hún Kamilla Einarsdóttir rithöfundur, féllst á að vera kynnir því ég er búin að pína hana til að prófa að segja alltaf já. Reyndar varð það til þess að hún endaði nýlega sem íþróttafréttaritari í þætti með Gumma Ben,“ segir Auður og hlær. 

Hvernig gerist það að kona eins og þú lendir í uppistandshóp? 

„Dóri DNA, frændi minn og uppistandari, sagði einu sinni að ég ætti að forðast uppistand því ég væri of viðkvæm fyrir því að fólk henti í mig bjórdósum. Samt var ég aðeins byrjuð að fikta við uppstand þegar kóvid skall á en þá varð allt svo ruglingslegt að það máðist út. Ég var samt búin að fá smjörþefinn, enda er svo gaman að vera með uppistand. Svo ég lifnaði öll við þegar þær höfðu samband við mig. Eiginlega varð ég svolítið upp með mér því þær eru svo reyndir uppistandarar og miklu klárari en ég. Einhverjar þeirra búnar að fylla Þjóðleikhúskjallarann aftur og aftur. Uppistandreynsla þeirra spannar frá tveimur upp í þrettán ár. Svo þær eru allar töluvert reyndari en ég. Og líka fyndnari. Og vanari að fá í sig bjórdósir,“ segir Auður.  

Auður Jónsdóttir ásamt uppistandshópnum Kitl en hinar eru Hildur Birna …
Auður Jónsdóttir ásamt uppistandshópnum Kitl en hinar eru Hildur Birna Gunnarsdóttir, Lovísa Lára og Kristín María Gunnarsdóttir.

Talandi um húmor. Þegar Auður er spurð út í sinn húmor kemur í ljós að hann er alveg útpældur. 

„Húmorinn minn er mín leið til að deyja ekki úr blygðun yfir að vera mennsk. Það er eitthvað svo pínlegt að vera manneskja með allskonar þarfir, hvatir, tilfinningar og duttlunga. Svo ég held dauðahaldi í húmorinn. Reyni að treysta á hann og trúa að ef ég sjálfsjeima mig nóg þá reddist allt. Þá losnar um rembingsálagið. 

Annars er húmor svo áhugavert fyrirbæri. Sleipur eins og áll. Það sem var fyndið í gær er orðið tabú á morgun. Eða bara alls ekki fyndið. Jafnvel aulalegt. Svo er húmor svo gott tæki til að snerta á tabúum, til að opna þau aðeins svo hægt sé að tala um þau án þess að allir verði smeykir. En það er líka áhættulifnaður, svo viðbúið að fara skrefi of langt og enda með að ætla að segja eitthvað fyndið en vera skyndilega búin að niðurlæga sig og aðra. Jafnvel glata mannorðinu eða særa einhvern illa. Á þann spennudrifna hátt er húmor samt gott tæki til að skoða og stundum afhjúpa hugsunina. Og auðvitað smjör og olía í samskiptum.

Besta leiðin til að sýna auðmýkt í flóknum aðstæðum er að sjálfsjeima sjálfa sig – finnst mér. Edda Björgvinsdóttir skrifaði til dæmis ritgerð um hvernig húmor hjálpar við stjórnun fyrirtækja – mig minnir að það hafi verið innihaldið. Allavega var ritgerðin á þessum nótum og ég held að Edda hafi orðið mjög vinsæll fyrirlesari með þessar athuganir, í ólíklegustu fyrirtækjum. Ég hugsa að ég hermi eftir henni og verði með athuganir á húmor í uppistandinu, en líka athuganir á skömm, fullkomnunaráráttu og nútímamenningu,“ segir hún. 

Er eitthvað sem þér finnst allaf fyndið? 

„Sko, það fyndnasta af öllu er þegar maður gerir eitthvað steikt eða hallærislegt en getur hlegið að sjálfum sér einhverju seinna. Þá verður léttirinn svo mikill. Að geta hlegið sig í gegnum bullið. Svo húmorinn minn gengur svolítið út á frekar svart sjálfsgrín, svokallað sjálfsjeim, og hann gerir það líka hjá hinum, leyfi ég mér að fullyrða og þær lemja mig þá bara á uppistandinu ef það er ekki rétt. En svo getur fólk speglað sig í þannig húmor. Við gerum jú mikið tl sömu hlægilegu hlutina. Og hugsum sömu hlægilegu hugsanirnar. Uppistandarinn er að vissu leyti miðill sem miðlar því sammannlega. Þess vegna hlær fólk, það speglar sig og finnur svörun þegar vel tekst til. Og létti yfir að vera ekki eins hræðilegt og það hélt sig vera. Annars sagði heimspekingur nokkur að húmor væri allskonar en allir ættu sameiginlegt að hlæja þegar nágranninn dytti af þakinu (svo lengi sem hann meiðist ekki). Svo við reynum allar að segja frá einhverjum sem datt ofan af þaki eða bara frá því þegar við duttum ofan af þaki í einhverjum skilningi,“ segir Auður.  

Hvernig ræktaðir þú húmorinn þegar þú varst yngri? Varstu að gera símaöt og djöflast í fólki? 

„Ég gerði botnlaust mikið af símaötum. Hringdi oft í Hrein og spurði hvort hann væri óhreinn. Mig minnir að ég hafi meira að segja hringt í konu sem hét Lofthæna og strítt henni eitthvað. Svo pantaði ég mér líka tíma á nokkrum hárgreiðslustofum, bara einhver staðar, og fannst sjúklega fyndið að enginn myndi mæta. Eftirminnilegasta og kannski hæpnasta atið mitt var kannski þegar ég hringdi í mömmu vinkonu minnar og spurði af hverju hún væri svona vond við dóttur sína. Svo hringdi ég líka einhver tímann í útvarpsþátt þar sem sálfræðingur sat fyrir svörum og þóttist vera í svo slæmum aðstæðum að maðurinn var farinn að taka andköf, á meðan vinkona mín stóð hlæjandi álengdar. Núna atast ég bara í fólki í gegnum netið. Mér finnst hættulega gaman að komast í símtæki vina minna og senda eitthvað. Veit samt ekki alveg hvort það er löglegt,“ segir Auður sem er ekki bara að skrifa bækur þessa dagana heldur að halda námskeið í skapandi skrifum og stússast í hinum og þessu. 

„Held að það hafi orðið getnaður í tölvunni minni, þ.e. að þessi orð sé að verða að bók. Mér finnst ekki ólíklegt að ég klári hana í sumar. En svo verður líka bara svo gaman að fara í ferðalög í sumar. Og sjálfsjeima sig á KEX. Eða kitla!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál