Sex atriði til að forðast þurrar og sprungnar hendur

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.

„Nú þegar COVID-19-kórónaveiran er byrjuð að dreifast hratt um samfélagið er handþvottur og sprittun handanna mikilvægari en nokkru sinni áður. Mjög mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum Landlæknisembættisins varðandi m.a. handþvott til að reyna að draga úr hættu á kórónuveiru-COVID-19-smiti,“ segir Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni í sínum nýjasta pistli: 

Þessi mikli handþvottur og sprittun sem við erum vonandi öll að framkvæma þessa dagana veldur álagi á húðinni og getur valdið því sem kallast ertiexem.

Við erum með náttúrulega innbyggða vörn í húðinni sem er m.a. gerð úr fitulagi. Þetta ver húðina gegn utanaðkomandi áreiti. Vatn, sápa og spritt geta eytt þessu fitulagi. Húðin verður þá rauð, þurr, hreistruð og sprungin. Fólk getur fundið fyrir sviða og/eða kláða. Í sumum tilfellum geta jafnvel komið litlar blöðrur á húðina. Við finnum flest fyrir einhverjum af þessum einkennum núna sem geta verið mjög óþægileg en mikilvægast er þó að við gefumst ekki upp á handþvottinum og höldum áfram eins og ráðlagt er.  

Það er þó hægt að gera þetta bærilegra fyrir hendurnar og draga úr þessum húðóþægindum með nokkrum einföldum ráðum:

— Notaðu milda sápu.

— Notaðu krem á hendurnar alltaf eftir handþvott til að mýkja húðina og vernda. Það er mikilvægt að kremið sé ilmefnalaust því ilmefni geta ert húðina og gert hana verri.

— Reyndu að takmarka snertingu við vatn þegar þú ert ekki að þvo á þér hendurnar. Til dæmis við þrif og uppvask er gott að nota hanska til að hlífa húðinni.

— Hægt er að kaupa þunna bómullarhanska og sofa með þá. Sniðugt að setja á hendurnar gott krem og síðan bómullarhanskana yfir. Þetta veitir húðinni mikinn raka.

— Notaðu vettlinga þegar þú ert úti. Kuldinn sem er úti núna þurrkar húðina enn meira.

— Ef þessi ráð hjálpa ekki og húðin er þurr, sprungin, rauð og slæm láttu þá lækni kíkja á þig. Kannski þarftu sterakrem til að slá á einkennin. Það gæti jafnvel verið komin sýking í húðina sem þarfnast meðhöndlunar.

mbl.is