Elísabet hannar grímur á Englandi

Elísabet Soffía Bender er klæðskeri og fatahönnuður.
Elísabet Soffía Bender er klæðskeri og fatahönnuður. Ljósmynd/Aðsend

Elísabet Soffía Bender er 25 ára klæðskeri og fatahönnuður á Englandi. Í sumar fór hún að hanna grímur en segir marga gera hið sama til þess að skapa sér smá tekjur í atvinnuleysinu á Englandi. Grímurnar er hægt að þvo og nota aftur og segir Elísabet það betra fyrir umhverfið en einnota læknagrímur. 

Elísabet fór til Leeds á Englandi í nám árið 2018 til þess að læra meira um föt og hönnunarferlið en áður hafði hún útskrifast með sveinspróf í klæðskerasaumi frá Tækniskólanum. „Þar sem ég var búin með klæðskerasaum áður komst ég inn á annað árið í Leeds Art og því átti ég að útskrifast núna síðastliðinn júlí en þar sem ástandið er slæmt hér á Englandi hefur athöfninni verið frestað þar til í desember. Ég skilaði lokaverkefninu mínu, sem var því miður ekki eins og ég hefði óskað mér með lokasýningu og útskrift. Skólinn er búinn að vera mjög duglegur að senda okkur upplýsingar um tækifæri eins og TikTokXGFF sem er keppni sem Graduate Fashion Foundation og samfélagsmiðillinn TikTok stóðu fyirir. Fyrr í sumar tók ég þátt í keppninni og fékk tækifæri til að vinna í verksmiðju í London og framleiða fjögur eintök af einni flík sem var valin af dómurum,“ segir Elísabet um áhrif kórónuveirufaraldursins á líf ungra fatahönnuða. Elísabetu dreymir um að verða fatatæknir (Garment Technician) eða reka reka sitt eigið tískuhús í framtíðinni en segir erfitt að fá tækifæri eins og ástandið er í heiminum í dag. 

Elísabet Soffía Bender við sköpun sína í fatahönnunarkeppni á vegum …
Elísabet Soffía Bender við sköpun sína í fatahönnunarkeppni á vegum TikTok. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði snemma að sauma föt á dúkkur

Elísabet hefur alltaf haft mikinn áhuga á fatahönnun og tísku og byrjaði snemma að hanna kjóla á Bratz-dúkkur og Barbie-dúkkur úr ósamstæðum sokkum og efnisbútum. Hún var svo aðeins sex ára þegar hún bað ömmu sína að kenna sér að prjóna. 

„Textíll og myndlist voru í miklu uppáhaldi í grunnskóla ásamt stærðfræði en þegar kennarinn sá ekki til og stærðfræðidæmin búin nýtti ég tímann í að hanna kjóla og skautabúninga þar sem skautar hafa alltaf verið mitt helsta áhugamál,“ segir Elísabet um áhuga sinn á fatahönnun og segist viss um að stór hluti af stærðfræðibókunum sé hönnunarteikningar.

„Þrátt fyrir að hafa alltaf haft þetta á bak við eyrað fannst mér stökkið erfitt. Ég fótaði mig illa í öðru námi áður en ég ákvað að taka skrefið út fyrir þægindarammann,“ segir Elísabet sem segist ekki enn sjá eftir því að hafa tekið skrefið. „Það sem heillaði mig alltaf þegar ég var yngri voru stóru og flottu kjólarnir sem ég sá fræga fólkið í á rauða dreglinum og er það mikið áhugmál að sitja og horfa á Óskarinn og aðra atburði úti í heimi. Í dag, þegar ég er búin að læra meira um heiminn og þekki alla vinnuna sem fer í einn kjól eða jakka, heillar þetta mig enn meira! Vinnan, þekkingin, stærðfræðin, innblásturinn og allt sem liggur að baki.“

Elísabet sækir innblástur meðal annars í eldri flíkur og sótti hún aðallega innblástur í lífstykki þegar hún vann að útskriftarlínu sinni. Hún notar síðan klæðskeratæknina úr Tækniskólanum og skapandi sníðagerð sem hún tileinkaði sér í skólanum í Leeds. 

„Útskriftarlínan mín var til dæmis innblásin af kvenréttindabaráttu og hversu framarlega Ísland er í þeim málum, kvenlíkamsímynd í gegnum söguna og áhrifum lífstykkja. Markmið mitt var að taka smáatriði frá lífstykkjum og nota í gegnum línuna. Ég vil leggja áherslu á að konum líði vel í því sem þær eru í og séu sjálfsöruggar.“

Mikið framboð af grímum

Elísabet byrjaði að hanna grímur í Englandi í sumar en í sumar var fólk skyldað til að nota grímu í búðum og fjölmennum byggingum í Englandi og Wales. Þrátt fyrir að margir nýti aukna eftirspurn til þess að selja grímur telur Elísabet að framboðið sé of mikið. 

„Ég tel að eftirspurnin sé minni en framboðið eins og er þar sem margir hérna úti eru að leita sér að leið til að fá smá tekjur þar sem atvinnuleysið er mikið. Ég til dæmis byrjaði á þessu til að safna peningum fyrir meistaragráðuna sem mig dreymir um að komast inn í í haust og heitir Digital Fashion og er í sama skóla og ég var að útskrifast úr,“ segir Elísabet, sem er aðeins nýlega komin með vinnu við fatabreytingar en hún segir erfitt að fá vinnu í Bretlandi núna. „Ég hef verið að selja grímurnar í gegnum Like-síðu á Facebook, Instagram og síðan var ég að opna Etsy-síðu sem hægt er að panta af.

Elísabet Soffía Bender hannar grímur og sendir meðal annars til …
Elísabet Soffía Bender hannar grímur og sendir meðal annars til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Í gegnum námið hef ég lært mikið um hversu mikil áhrif hraðtíska eða „Fast Fashion“ og tískuheimurinn hefur á umhverfið og jörðina. Eftir að hafa notað dauðan stokk og efni úr eldri skólaverkefnum í lokalínuna mína ákvað ég að endurnýta meðal annars litla efnisbúta sem ég á hér og þar í vinnuaðstöðunni minni og hef sett upp núna á þessum tímum þar sem skólanum var lokað um miðjan mars. Að nota endurnýtanlegar grímur í stað læknagríma er umhverfisvænna og gerir læknum því kleift að geta notað sínar grímur án þess að þeirra birgðir klárist. Hérna úti sé ég mikið af grímum og hönskum á götunni og það hefur áhrif á jörðina og því eru endurnýtanlegar grímur sjálfbærari og umhverfisvænni kostur. Grímurnar mínar eru að mestu gerðar úr bómull og teygju, og því einfalt að þrífa þær í þvottavélinni. Einnig eru þær úr þremur efnislögum.“ 

Grímur hannaðar af Elísabetu.
Grímur hannaðar af Elísabetu. Ljósmynd/Aðsend

Jákvæð áhrif

Kórónuveiran hefur sett í strik í reikninginn hjá Elísabetu og skólasystkinum hennar en þrátt fyrir það telur hún að heimsfaraldurinn eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á tískuna. 

„Það er heill árgangur úr öllum háskólum sem bjóða upp á fatahönnun sem fær ekki að sýna afrakstur sinn eins og hann hefði hugsað sér. 2020-árgangurinn eins og hann er oft kallaður hérna úti er þó klár og flestir auglýsa vinnu sína og afrakstur á Instagram. Margir bekkjarfélaga minna hafa opnað instagram-búðir eins og ég hef gert fyrir grímurnar mínar. Það sem ég held að muni gerast er að hraðtískufyrirtæki og stærri tískuhús muni líklegast færa sína sníðagerð og prufur í tölvuna í gegnum forrit eins og Optitx og því gæti hönnunarferlið orðið sjálfbærara og þá verið hægt að vinna það heiman frá eða á skrifstofu. Ég tel að veiran gæti því haft jákvæð áhrif á tískuheiminn þrátt fyrir að það sé heill árgangur af fatahönnuðum atvinnulaus eins og staðan er í dag. Mögulega munu hönnuðir nota grímur, rúllukraga og klúta til að fela andlitið í línum sínum næstu árin en annars held ég að hönnuðir í dag hugsi mikið út í hvernig þeir geta gert línurnar sínar sjálfbærari og umhverfisvænni.“

View this post on Instagram

Face masks! 6£ +2£ shipping fee DM to order ❤️ Dear, friends, family and followers! Due to recent events and regulations. I have decided to start making and selling reusable face masks. The masks are made out of cotton and come in 2 different shapes! Boxed with pleats and then curved with a seam through the middle. The boxed pleated one has a hole to add another layer or a filter but the other one does not. Bare in mind these are only fabric masks and do only protect you as much as that. I have got 2 sizes: an Adult size and a children’s size. The fabrics I have got are as follows: Solid colours: black, red and white. Tie dye: Pink, brown and dark grey. Musical notes pattern and green striped pattern. #facemask #reusablemask #besustainable #sewing #smallbusiness

A post shared by Elisabet Bender | Fashion (@elisabetbender_fashion) on Jul 22, 2020 at 8:22am PDT

mbl.is