Karlmenn með bauga – hvað er til ráða?

Ljósmynd/Colourbox

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá karli sem spyr út í bauga undir augum. 

Kæra Jenna. 

Þreytubaugar undir augum hjá karlmönnum eru algengir. Hvað er til ráða að laga þetta?

Kveðja, 

Jón 

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. Ljósmynd/Gígja Einarsdóttir

Komdu sæll.

Þetta er einmitt mjög algeng spurning sem við fáum nær daglega. Það er ekkert eitt einfalt svar við þessari spurningu þar sem taka þarf tillit til margra þátta þegar meðferð er valin. Í stuttu máli má segja JÁ, það er hægt að minnka þreytubauga undir augum hjá bæði karlmönnum og kvenmönnum.

Baug­ar und­ir aug­um stafa af nokkr­um þátt­um. Í fyrsta lagi tengj­ast þeir erfðum. Við erf­um and­lits­bygg­ing­una frá for­eldr­um okk­ar þ.m.t. bei­na­upp­bygg­inu og þykkt og staðsetn­ingu fituvefja og sum­ir eru ein­fald­lega með bauga frá barns­aldri. Í öðru lagi er húðin misþykk á augnsvæðinu. Almennt þynn­ist húðin með ár­un­um og þá verða æðar sjá­an­legair og gefa þess vegna þenn­an ein­kenn­andi blárauða lit. Í þriðja lagi minnka einnig fitu- og stoðvef­ir sem liggja í augntóft­inni með aldr­in­um þannig að við verðum „hol­ari“ sem læt­ur okk­ur líta út fyr­ir að vera með meiri bauga.

Auk þess­ara þátta er fjölda­margt annað sem get­ur stuðlað að áber­andi baug­um, til dæm­is:

Svefn­leysi

Dekkri húðgerð. Fólk með dekkri húðlit er oft dekkra kring­um aug­un (hyperpig­mentati­on)

Langvinnt (krónískt) exem á augnsvæði get­ur dekkt húðina

Of­næmi t.d. fyr­ir frjó­korn­um eða dýr­um sem ein­kenn­ist af bólgu kring­um augu

Of mik­il út­setn­ing fyr­ir sól­inni!

Vinsælustu meðferðirnar hjá okkur kringum augun eru fylliefni í kringum augun ef mikið tap er á fyllingu á baugasvæðinu eða Sunekos sem byggir upp kollagen í húðinni og styrkir hana. Einnig er hægt að bæta þéttingu húðarinnar og fá smá augnlyftingu með hljóðbylgjumeðferð (ultraformer) og djúpum laser (picolaser). Ef aftur á móti mjög laus húð eða lélegt sogæðakerfi undir augum valda augnpokum duga þessar meðferðir ekki til og þá vísum við á skurðaðgerð hjá lýtalæknum.

Einfaldast væri að panta viðtal hjá annaðhvort húðlækni eða lýtalækni til að meta hvaða meðferð hentar þér best.

Gangi þér vel,

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is