Dóttir Bryant skrifar undir fyrirsætusamning

Umboðsskrifstofan IMG Models birtu mynd af Nataliu Bryant þegar þeir …
Umboðsskrifstofan IMG Models birtu mynd af Nataliu Bryant þegar þeir kynntu nýjustu stórstjörnu sína. Skjáskot/Instagram

Natalia Bryant, elsta dóttir dóttir körfuboltastjörnunnar Kobe Bryants heitins og ekkju hans Vanessu Bryant, stefnir á frama í fyrirsætuheiminum. Fyrirsætuskrifstofan IMG Models greindi frá samningnum við hina 18 ára gömlu Bryant en skrifstofan er ein sú stærsta og virtasta í heimi. 

Hér sést Natalia Bryant þriggja ára í fangi föður síns …
Hér sést Natalia Bryant þriggja ára í fangi föður síns Kobe Bryant. Á myndinni er einnig móðir hennar Vanessa Bryant. REUTERS

„Ég hef haft mikinn áhuga á tísku síðan ég var lítil. Ég er ástfangin af bransanum og síðan ég man eftir mér hef ég viljað verða fyrirsæta. Ég á margt ólært en ég held að þetta sé tækifæri fyrir mig til þess að læra að tjá mig á skapandi hátt,“ sagði Bryant á Instagram-síðu fyrirsætuskrifstofunnar. 

Margar af stærstu fyrirsætum heims eru með samning við IMG Models. Má þar nefna Hadid-systurnar Gigi og Bellu, Chrissy Teigen og Karlie Kloss. Gigi Hadid var meðal þeirra sem óskuðu Bryant til hamingju. 

Fyrirsætuskrifstofan stóra er dugleg að landa stórum nöfnum þessa dagana. Stutt er síðan tilkynnt var að stjúpdóttir Kamölu Harris, Ella Emhoff, hefði skrifað undir samning við skrifstofuna. 

mbl.is