Öruggur sigur Blika á FH-ingum

Blikar fögnuðu sigri á FH í dag.
Blikar fögnuðu sigri á FH í dag. Ómar Óskarsson

Tveimur leikjum var að ljúka í Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu. Breiðablik vann þá öruggan 3:0 sigur á FH og Stjarnan lagði Keflavík suður með sjó.

Staðan var 2:0 fyrir Blika í hálfleik. Davíð Kristján Ólafsson kom þeim yfir áður en Pétur Viðarsson gerðist brotlegur innan teigs og fékk þar að auki rauða spjaldið. Arnór Sveinn Aðalsteinsson fór á punktinn og tvöfaldaði forystu Blika.

Rúmum tíu mínútum fyrir leikslok braut Kassim Doumbia svo af sér innan teigs, Arnór fór aftur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Blikar jöfnuðu Fylki að stigum á toppi riðilsins, bæði lið hafa nú þrettán stig. Þá komust Blikar um leið upp fyrir FH sem er með stigi minna.

Stjarnan vann á sama tíma sigur á Keflavík þegar liðin mættust í Reykjaneshöllinni. Markalaust var allt þar til um stundarfjórðungur var eftir, en þá skoraði Daninn Jeppe Hansen tvívegis eftir að hafa komið af varamannabekknum. Lokatölur 2:0.

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Stjarnan festi sig í sessi í þriðja sætinu með sigrinum, hefur þar tíu stig og er fimm stigum á eftir ÍA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert