Kynþáttafordómar á Egilsstöðum

Lið Ægis á Egilsstöðum í dag. Brenton Muhammad er lengst …
Lið Ægis á Egilsstöðum í dag. Brenton Muhammad er lengst til vinstri. Ljósmynd/aegirfc.is

Leikmaður knattspyrnuliðs Hattar frá Egilsstöðum er sakaður um að hafa sýnt kynþáttafordóma í garð leikmanns Ægis úr Þorlákshöfn þegar liðin mættust í 2. deild karla á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum í dag. Austurfrett.is greinir frá þessu.

Umræddur leikmaður er Georgi Stefanov frá Búlgaríu sem kom til liðs við Hött í júlí og spilaði í dag sinn þriðja leik fyrir félagið. Sá sem varð fyrir meintum kynþáttafordómum var Brenton Muhammad, enskur markvörður Ægis.

Í frétt Austurfréttar segir:

Tvívegis urðu Ægismenn ævareiðir eftir viðskipti Stefanov og Muhammad. Í fyrra skiptið var Stefanov að setja pressu á markvörðinn og þegar markvörðurinn tók boltann upp og kom honum í leik á ný, virtist Stefanov segja eitthvað við hann sem reitti hann og varamenn Ægis, sem hituðu upp í nokkurra metra fjarlægð, til mikillar reiði.

Svipað atvik átti sér stað skömmu síðar. Aftur virtist Stefanov segja eitthvað við Muhammad sem reitti hann til reiði og heyrðist markvörður Ægis kalla á línuvörðinn og dómarann að þarna hefði verið um rasísk ummæli að ræða.

Umrædd ummæli heyrðust ekki upp í stúku, en leikmaður Hattar sem var við hliðarlínuna svaraði spurningum áhorfenda og sagði að Stefanov hefði í tvígang kallað markvörð Ægis apa. Þá sögu segja einnig leikmenn Ægis sem Austurfrétt ræddi við.

Stemningin þegar leikurinn var flautaður af var skrítin. Áhorfendur voru margir hverjir furðu lostnir og með óbragð í munni yfir því sem þeir höfðu orðið vitni að.

Markvörður Ægis var stórmannlegur og fór beint til Stefanov og faðmaði hann og tók í höndina á honum. Að því loknu komu Hattarmenn einn af öðrum og tóku utan um markvörð andstæðingana og báðu Ægismenn afsökunar á þessari framkomu. Ótrúleg uppákoma á knattspyrnuvelli á Austurlandi árið 2015.

Rasismi alls ekki líðandi
Gunnlaugur Guðjónsson þjálfari Hattar sagðist ekki hafa heyrt né séð umrædd atvik og sagði menn saklausa uns sekt þeirra væri sönnuð. Hinsvegar yrði tekið á málinu innanbúðar hjá félaginu og leikmanninum veittur möguleiki á skýra mál sín.

„Við munum ekki sætta okkur við svona vitleysu. Við stöndum ekki fyrir eitthvað svona. Einhver svona rasismi er alls ekki líðandi og þó að stærri klúbbar úti í heimi standi með sínum mönnum í gegnum súrt og sætt munum við ekki líða eitthvað svona,“ sagði Gunnlaugur í samtali við Austurfrétt.

Mögulega verður ferill Georgi Stefanov hjá félaginu stuttur, en þessi búlgarski leikmaður kom til liðsins í félagaskiptaglugganum og hefur leikið þrjá leiki. Óvíst er hvort þessi atvik muni draga dilk á eftir sér fyrir knattspyrnudeild Hattar, þar sem þau voru látin óátalin af dómaratríóinu.

Ægir vann leik liðanna 2:0 og náði í dýrmæt stig í fallbaráttu 2. deildarinnar en þar eru bæði liðin í hörðum slag.

mbl.is