Ísland mætir einu af sterkustu landsliðum Asíu

Frá Dubaí.
Frá Dubaí. mbl.is/afp

Sameinuðu arabísku furstadæmin, sem taka á móti íslenska karlalandsliðinu í vináttulandsleik í knattspyrnu í Dubai í dag klukkan 14.20, eru með eitt af sterkari liðum Asíu og eru með í baráttunni um sæti á HM í Rússlandi 2018.

Undankeppnin í Asíu er komin vel af stað. Furstadæmin sátu yfir í fyrstu umferð en eru nú í riðlakeppni í annarri umferð af fjórum. Liðið er með 13 stig í öðru sæti í sínum riðli, á eftir Sádi-Arabíu sem er með 16 stig, en liðin fara væntanlega bæði í þriðju umferð keppninnar.

Furstadæmin eru í 64. sæti á heimslista FIFA og samkvæmt honum eru þau með fimmta sterkasta lið Asíu, á eftir Íran, Suður-Kóreu, Japan og Ástralíu, en á undan Úsbekistan, Sádi-Arabíu, Kína og Katar sem eru í næstu sætum á eftir.

Ísland er sem kunnugt er án fjölmargra fastamanna í Persaflóaferðinni en Furstadæmin verða að líkindum með sitt sterkasta lið í leiknum í dag.

Ísland vann Finnland, 1:0, í Abu Dhabi á miðvikudaginn en Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari sagði við Morgunblaðið í gær að hann reiknaði með mun erfiðari leik í Dubai. „Þeir eru með sitt besta lið sem hefur á að skipa svona nokkurn veginn þeirra gullkynslóð. Þjálfarinn var með marga leikmenn í yngri landsliðunum og er búinn að fylgja þeim upp. Þeir fóru með 23 ára liðið sitt á Ólympíuleikana og uppistaðan í A-liðinu í dag eru leikmenn sem spiluðu þar,“ sagði Heimir.

Tveir nýliðar í byrjunarliðinu

Emil Pálsson úr FH og Andrés Már Jóhannesson úr Fylki eru í byrjunarliði Íslands í dag og spila sinn fyrsta landsleik. Heimir og Lars Lagerbäck gera fimm breytingar frá leiknum við Finna. Eiður Smári Guðjohnsen verður núna í framlínunni og er aftur fyrirliði eins og í Finnaleiknum. Gunnleifur Gunnleifsson er enn ekki leikfær vegna meiðsla.

Byrjunarliðið er þannig skipað: Mark: Ingvar Jónsson. Vörn: Andrés Már Jóhannesson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Kristinn Jónsson. Miðja: Elías Már Ómarsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Emil Pálsson, Arnór Ingvi Traustason. Sókn: Eiður Smári Guðjohnsen, Viðar Örn Kjartansson. vs@mbl.is/gummih@mbl.is