„Hann var eitthvað skrítinn“

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks,
Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, Eva Björk Ægisdóttir

„Ég er ánægður með þrjú stigin en ekkert sérlega ánægður með hvernig við spiluðum í seinni hálfleik,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks eftir 1:0 sigur á Víking R. í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld en leikið var á Kópavogsvelli.

Blikar náðu í annan sigur sinn í deildinni í kvöld en það var Atli Sigurjónsson sem skoraði eina mark leiksins á 15. mínútu með skalla.

„Ég ætla ekki að taka af Víkingunum að þeir vörðust vel en við hefðum alveg getað fengið mark á okkur í einhverjum af þessum fyrirgjöf hjá þeim. Ég er þó ánægður með þrjú stigin gegn svona fínu liði. Það er ekkert alltaf auðvelt þegar maður er manni fleiri, það kemur meiri kraftur í Víkinga við að missa mann útaf og þeir hlaupa meira.“

„Ég hef ekki tileinkað mér það að gagnrýna eða þegar það hefur hallað verulega á okkur, sem hefur gerst ansi oft, svo ég ætla ekki að byrja á að segja já eða nei. Ég bara veit það ekki,“ sagði Arnar ennfremur.

Elfar Freyr Helgason fór af velli á 50. mínútu en hann fékk höfuðhögg um miðjan fyrri hálfleikinn og þurfti því að fara af velli. Hann fékk verkjatöflur undir lok fyrri hálfleiks en það dugði þó ekki til.

„Hann fékk höfuðhögg um miðjan fyrri hálfleik og var bara eitthvað skrítinn. Hann sagðist vera í lagi en við þorðum ekki að taka séns á því. Hann var bara ekki eðlilegur og klappandi á sér hausinn.“

Viktor Bjarki Arnarsson var rekinn af velli á 39. mínútu. Hann fékk fyrst gult spjald fyrir kjaftbrúk og innan við mínútu síðar fékk hann annað gula spjald fyrir hættulega tæklingu á Jonathan Glenn. 

„Ég held að fyrra spjaldið hafi alveg verið gult spjald. Það var mikill hiti og þeim fannst dómgæslan halla á þá og þá missa menn sig. Ég veit ekki hvort hann hafi rekist eða sparkað í hann. Það voru læti stuttu áður og svo er hann aftur í action, það leit ekkert vel út, en ég hélt að hann hafi bara misst hausinn og sparkað en svo getur verið að þeir hafi bara rekist saman og þá er það náttúrlega blóðugt.“

„Það var svolítið mikið um spjöld og svo horfir maður á KR - FH þar sem var allt önnur lína á dómgæslu. Hefði þessi dómari dæmt þann leik þá hefði það endað 8 á móti 8. Þetta er galli sem við þjálfarar þurfum að eiga við, því það var allt önnur lína í dag,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert