Hólmfríður Magnúsdóttir í KR

Hólmfríður Magnúsdóttir er komin aftur til KR.
Hólmfríður Magnúsdóttir er komin aftur til KR. Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild KR hefur gert samkomulag við Hólmfríði Magnúsdóttur um að leika með félaginu næstu tvö árin en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í dag. Hún kemur frá norska liðinu Avaldsnes.

Hólmfríður, sem er Rangæingur, lék upp yngri flokka með strákunum í KFR, en flutti svo til Reykjavíkur og lék með KR. Hún lék 129 leiki fyrir meistaraflokk félagsins frá 2000 til 2008 og skoraði 109 mörk.

Hún hefur leikið síðustu ár í atvinnumennsku en hún hefur leikið með félögum á borð við Fortuna Hjörring, Kristianstad, Philadelphia Independence og þá hefur hún leikið með norska stórliðinu Avaldsnes síðustu fimm tímabil.

Hún er nú komin aftur í KR en hún gerir tveggja ára samning við félagið. Þetta er mikill hvalreki fyrir félagið sem hefur styrkt sig vel síðustu vikur. Þórunn Helga Jónsdóttir og Katrín Ómarsdóttir sömdu við félagið á dögunum og því ljóst að KR ætlar sér stóra hluti næsta sumar.

Hólmfríður á 110 landsleiki að baki með íslenska landsliðinu og hefur gert 37 mörk í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert