Taktískur þjálfaraslagur

Heimir Guðjónsson og Kristján Guðmundsson með bikarinn sem barist er ...
Heimir Guðjónsson og Kristján Guðmundsson með bikarinn sem barist er um í dag. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Miðað við hvernig deildin hefur spilast getur allt gerst og vonandi endurspeglast það í úrslitaleiknum,“ segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, þegar hann spáir í spilin um bikarúrslitaleik ÍBV og FH á Laugardalsvelli í dag. Gunnlaugur, sem sjálfur hefur bæði upplifað það að vinna bikarinn og tapa úrslitaleiknum, er sérstaklega spenntur fyrir slagnum á milli þjálfaranna Kristjáns Guðmundssonar hjá ÍBV og Heimis Guðjónssonar hjá FH.

„Þeir eru báðir mjög klókir þjálfarar með gríðarlega mikla reynslu og hafa lent í öllu, svo ég held að það verði skemmtilegt að fylgjast með því og sérstaklega hvernig Kristján kemur inn í leikinn. Það verður spennandi að sjá hvernig hann setur leikinn upp, hann hefur sýnt það á ferli sínum að hann hefur oft einhverja ása í erminni og getur komið liðum á óvart. Hann hefur háð hildi við Heimi og þetta gæti orðið svolítið taktískur slagur þeirra,“ segir Gunnlaugur, en fyrir fram er FH sigurstranglegri aðilinn.

„Það er ótrúleg sigurhefð komin í þetta félag sem stórveldi síðustu 15 ára eða svo og flestir búast við því að FH-ingar vinni leikinn. En ÍBV býr að því að hafa farið í þennan leik í fyrra og um helmingur hópsins tók þátt í því. Það gæti skipt máli að Eyjamenn fóru sneypuför í fyrra. Þeir áttu möguleika á titli en fóru svo tómhentir með bátnum heim og þeir leikmenn sem tóku þátt í þeim leik gætu smitað hina,“ segir Gunnlaugur.

Greinina í heild sinni má finna í 12 síðna sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um bikarúrslitaleik karla.