Þyngra en tárum taki

Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur fylgist með Valsmönnum í kvöld.
Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindavíkur fylgist með Valsmönnum í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er þyngra en tárum taki að fá ekkert út úr þessum leik miðað við hvernig við spiluðum á löngum köflum,“ sagði Gunnar Þorsteinsson fyrirliði Grindvíkinga, sem máttu sætta sig við 2:0 tap fyrir Val að Hlíðarenda í dag þegar liðin mættust í 16. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Við vorum farnir að ýta Valsmönnum aftarlega í stöðunni 1:0 fyrir þá en þegar staðan var orðin 2:0 og tíu mínútur eftir, varð þetta erfitt.  Við héldum áfram að reyna en þeir sigldu sigrinum þægilega í höfn. Við hefðum þurft að jafna í 1:1 til að gera þetta að meiri leik en Einar Karl má eiga að þetta voru frábær tvö mörk hjá honum. Við eigum ekki að hleypa besta vinstri fótar skotmanni deildarinnar í skot á vítateigslínunni, það er barnalegur varnarleikur.“

„Það sáu allir í dag að við áttum heilt yfir góðan leik, það var ekkert andleysi eða deyfð og alls engin frammistaða til að skammast sín fyrir svo við höldum bara okkar striki. Fótboltinn er nú bara þannig að það er sama þótt þú lítir út eins og Barcelona, þá ertu bara skilgreindur út frá atvikum og í dag einum eða tveimur. Valsmenn voru með einhvern X-faktor í dag, við slökktum á okkur í smástund og það er nóg fyrir gæðalið eins og Val að gera út um leikinn.“ 

mbl.is