Elín Metta rifti samningi sínum

Elín Metta Jensen í leik með Val gegn ÍBV.
Elín Metta Jensen í leik með Val gegn ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Landsliðskonan Elín Metta Jensen er búinn að rifta samningi sínum við Val og óvíst er með hvaða liði hún leikur á næstu leiktíð.

Vefsíðan fótbolti.net greinir frá þessu en Elín Metta, sem er 22 ára gömul, hefur leikið allan sinn feril með Val og hefur verið í stóru hlutverki með því undanfarin ár. Hún skoraði 16 mörk í 17 leikjum í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og varð næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

Elín Metta segir í samtali við fótbolti.net að hún ætli að spila áfram á Íslandi og það muni skýrast fljótlega hvort hún muni semja aftur við Val eða annað félag.

Elín Metta hefur átt fast sæti í landsliðshópnum síðustu árin en hún hefur spilað 32 A-landsleiki og hefur í þeim skorað 8 mörk.

mbl.is