Ranieri hrósaði Kolbeini í hástert

Kolbeinn Sigþórsson fyrir sinn næstsíðasta landsleik sem var gegn Englendingum …
Kolbeinn Sigþórsson fyrir sinn næstsíðasta landsleik sem var gegn Englendingum í sextán liða úrslitum EM sumarið 2016, en Kolbeinn skoraði sigurmark Íslands í leiknum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Við höfum ekki séð hann spila en vita allir hvað hann gerir fyrir Ísland þegar hann er í standi,“ segir Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari um valið á Kolbeini Sigþórssyni í hópinn sem fer til Bandaríkjanna í síðustu vináttulandsleiki Íslands áður en HM-hópurinn verður valinn í maí.

Kolbeinn lék með varaliði Nantes á dögunum en hefur ekki leikið með aðalliði félagsins síðan í ágúst 2016, vegna afar erfiðra hnémeiðsla.

„Okkur langar til að sjá hann spila, langar að sjá hann á æfingum og meta hvort fylgst verði með honum í framhaldinu eða hvort of langt sé í hann,“ segir Heimir. „Við viljum meta með eigin augum hvar hann er staddur,“ bætir hann við. Aðspurður hvort hann hefði heyrt í Kolbeini sjálfum og hvernig hann mæti stöðu framherjans núna svaraði Hemir:

„Hann er í mjög góðu standi, honum líður sjálfum vel. Ég átti gott spjall við [Claudio] Ranieri [þjálfara Nantes] sem hrósaði honum í hástert fyrir hvernig hann er búinn að vera að æfa og standa sig í sinni endurkomu,“ segir Heimir, og bætir við að valið á Kolbeini sé í fullu samráði við Nantes sem hafi leyft að Kolbeinn muni spila, sem sé ef til vill óvanalegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka