Fallin vonarstjarna Svía til Fjölnis?

Valmir Berisha.
Valmir Berisha. Ljósmynd/http://svenskfotboll.se/

Fjölnir og norska knattspyrnufélagið Aalesund eiga í viðræðum varðandi möguleikann á því að Fjölnir fái að láni 21 árs gamlan framherja, Valmir Berisha.

Þrátt fyrir að hann sé enn ungur má segja að Berisha hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar sem eins efnilegasta leikmanns Evrópu á sínum tíma. Hann varð markakóngur heimsmeistaramóts U17-landsliða árið 2013 þegar hann skoraði sjö mörk fyrir sænska landsliðið, sem vann til bronsverðlauna. Berisha, sem fæddur er í Kósóvó en lék með yngri flokkum Halmstad í Svíþjóð, var í kjölfar HM afar eftirsóttur og hafnaði til að mynda tilboðum frá stórliðunum Dortmund og Juventus, áður en hann samdi við Roma.

Berisha spilaði hins vegar aldrei meistaraflokksleik fyrir Roma og hefur hvergi náð sér á strik í meistaraflokki. Hann lék aðeins 2 af 23 leikjum sínum fyrir Aalesund í fyrra í byrjunarliði, og skoraði ekkert mark frekar en í öðrum leikjum sínum í meistaraflokki.

Aalesund er með of marga erlenda leikmenn í sínum röðum, samkvæmt reglum norsku knattspyrnunnar, þar á meðal fjóra Íslendinga, og er því opið fyrir því að lána Berisha út. Hann kom til Fjölnis á dögunum og æfði með liðinu auk þess að taka þátt í æfingaleik við Breiðablik, sem Blikar unnu reyndar 6:1.

Kristján Einarsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fjölni, sagði við Morgunblaðið að viðræður við Aalesund stæðu yfir og vonaðist til að málið skýrðist fyrir vikulok.

Sjá fréttina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert