Dæmið snérist við á Hlíðarenda

Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld. mbl/Arnþór Birkisson

Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, sagði karma hafa haft eitthvað niðurstöðuna að gera í leik Vals og Breiðabliks í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Breiðablik sigraði 2:1 en sigurmarkið kom í uppbótartíma. 

Ágúst rifjaði upp að fyrr í sumar hafði Valur betur 2:1 gegn Breiðablik í deildinni, einnig á Hlíðarenda, og þá kom sigurmark Vals undir lok venjulegs leiktíma. „Við lentum í þessu á móti Völsurunum í deildinni og komum því eiginlega af stað í deildinni í þeim leik. Þá fengum við mark á okkur á 88. mínútu og gátum varla komið til baka. Það var því mjög kærkomið að svara fyrir sig. Það var dálítið karma í þessu og dæmið snérist við. Frábært að þetta skuli hafa lent okkar megin í dag,“ sagði Ágúst og segist ekki hafa haft miklar áhyggjur af því þótt Valsmenn hafi ráðið ferðinni að mestu í síðari hálfleik. 

„Já þeir voru kannski líklegri en leikurinn þróaðist eins og við vildum að því leyti að þetta var stöðubarátta. Þú hefur verið í fótbolta sjálfur og þekkir að þegar sigurmark kemur á þessum tímapunkti þá er það eins og vera kýldur í magann því þú getur ekki svarað fyrir þig. Mér fannst fyllilega verðskuldað að við skyldum klára dæmið í þessum leik.“

Ætlar Ágúst að skila bikar í hús í Smáranum á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Breiðabliks? „Við erum alveg pollrólegir. Deildin fer aftur af stað 1. júlí og tveir hörkuleikir á útivöllum framundan, á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Við sjáum svo hverja við fáum í undanúrslitum í bikarnum. Það verður spennandi enda hörkulið sem eru eftir í keppninni og allt erfiðir andstæðingar,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is. 

Ágúst Þór Gylfason
Ágúst Þór Gylfason mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is