„Við erum verulega spældir“

Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leik liðanna á Hlíðarenda í kvöld. mbl/Arnþór Birkisson

„Þetta er eins svekkjandi og frekast getur orðið í fótbolta,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is þegar úrslitin lágu fyrir í bikarleiknum gegn Breiðabliki á Hlíðarenda í kvöld. 

Breiðablik sigraði 2:1 en sigurmarkið kom í uppbótartíma. „Við erum því verulega spældir og fúlir en nóg er eftir af sumrinu og við þurfum bara að halda áfram og hugsa um næsta leik.“

Valsmenn voru mun meira með boltann í síðari hálfleik og virtust þá líklegri til að knýja fram sigur. Ólafur skipti sóknarþenkjandi leikmönnum inn á af varamannabekknum og lék til sigurs en það dugði ekki til. 

„Mér fannst við vera betri í þessum leik og vorum ofan á nánast allan tímann í leiknum en það er ekki nóg því við fengum ekkert út úr því. Það er fúlt.“

Spurður um hvort honum hafi þótt mörkin sem Blikarnir skoruðu vera ódýr var á honum að skilja það væri aukaatriði. 

„Mörk eru bara mörk. Það er ekkert út á það að setja. Svoleiðis er fótboltinn. Sem betur fer eru skoruð mörk í fótbolta,“ sagði Ólafur ennfremur við mbl.is 

Ólafur Jóhannesson
Ólafur Jóhannesson mbl.is/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert