Var okkur til góðs að fara ekki upp

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, segir að markmiðið fyrir sumarið …
Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, segir að markmiðið fyrir sumarið hafi verið að vinna 1. deildina. mbl.is/Eggert

„Leikurinn gegn Fylki leggst gríðarlega vel í mig og það er í raun bara frábært fyrir okkur og deildina að fá svona leik. Bæði lið hafa átt mjög gott sumar þannig að þetta verður hörkuleikur. Markmiðið er að vera með góða og flotta umgjörð í kringum leikinn og reyna að fá sem flesta á völlinn,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur í Inkasso-deild kvenna í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í vikunni.

Keflavík tekur á móti Fylki í 13. umferð deildarinnar á Nettóvellinum í Keflavík í dag klukkan 19:15. Heimakonur sitja á toppi deildarinnar með 31 stig eftir ellefu spilaða leiki en Fylkir er í öðru sætinu með 27 stig eftir tíu spilaða leiki.

„Þetta er í raun bara úrslitaleikur, um hvað, hvort liðið stendur uppi sem sigurvegari í deildinni í haust. Við erum að fara spila við þær núna í dag og svo aftur 20. ágúst, sem er sem sagt frestaður leikur frá því í júní, en sigur í leiknum í dag myndi gera mikið fyrir bæði lið. Markmiðið okkar fyrir mót var að vinna deildina og vonandi komumst við nær því markmiðið eftir leikinn í kvöld.“

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur skorað fimm mörk í ellefu leikjum …
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur skorað fimm mörk í ellefu leikjum fyrir Keflavík í sumar. mbl.is/Eggert

Hvorugt liðið tilbúið í úrvalsdeildina

Keflavíkurliðið var nálægt því að fara upp um deild árið 2016. Liðið tapaði hins vegar fyrir Haukum í umspili um laust sæti í úrvaldeildinni, samanlagt 3:2. Keflavík vann fyrri leikinn 1:0 en tapaði seinni leiknum 3:1 en Haukastúlkur skoruðu síðustu mörk leiksins á lokamínútunum. Liðið var þá mjög ungt og telur Gunnar að það hafi ef til vill verið best fyrir félagið, á þeim tíma, að fara ekki upp um deild.

„Þetta er nánast sami hópur og við vorum með fyrir tveimur árum, að undaskildum tveimur útlendingum. Við erum með nýja útlendinga en uppöldu stelpurnar eru núna orðnar eldri, reyndari og betri í knattspyrnu. Ef við horfum tvö ár aftur í tímann þá var hvorugt liðið tilbúið í að fara upp um deild. Ég tel, svona eftir á að hyggja, að það hafi verið okkur til góðs að fara ekki upp um deild á þeim tíma. Ég tel okkur hins vegar vera tilbúnar í dag til þess að spila í Pepsi-deildinni, við erum með reyndari leikmenn í liðinu núna, eitthvað sem við vorum ekki með í fyrra og hittifyrra og við eigum heima í úrvalsdeildinni eins og staðan er í dag,“ sagði Gunnar enn fremur í samtali við mbl.is.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert