Mexíkóarnir klára ekki tímabilið með Þór/KA

Stephany Mayor og Bianca Sierra hafa verið algjörir lykilmenn í …
Stephany Mayor og Bianca Sierra hafa verið algjörir lykilmenn í liði Þór/KA, undanfarin ár. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mexíkósku knattspyrnukonurnar í Þór/KA, þær Ariana Calderon, Bianca Sierra og Stephany Mayor, munu ekki klára tímabilið með Akureyrarliðinu en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í kvöld. Þær munu því missa af lokaleik liðsins gegn Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna sem fram fer um næstu helgi, sem og seinni leik liðsins gegn Wolfsburg í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en fyrri leik liðanna lauk með 1:0-sigri Wolfsburg á Akureyri.

Landsliðsþjálfari Mexíkó hefur krafist þess að fá leikmennina til æfinga með landsliðinu, tveimur vikum áður en undankeppni Mið- og Norður-Ameríkuríkjanna fyrir HM í Frakklandi 2019 hefst. Fyrsti leikur Mexíkó í undankeppninni er 4. október og munu þær því halda til Mexíkó strax í fyrramálið.

Í yfirlýsingu frá Þór/KA segir:

Stjórn og þjálfari Þórs/KA hafa, í samstarfi við KSÍ, reynt allt til að ná samningum við mexíkóska landsliðið og þjálfarann og hafa teygt sig til hins ýtrasta til að fresta brottför þeirra og/eða fá þær til baka til þátttöku í leiknum í Þýskalandi, en án árangurs. Kröfu mexíkóska sambandsins verður ekki haggað. Jafnframt hefur verið leitað leiða til að sýna fram á rétt Þórs/KA til að neita þessari kröfu, en svo virðist sem það sé ekki hægt undir neinum kringumstæðum. Athygli vekur í þessu sambandi að ef Þór/KA tækist að slá Wolfsburg út væru leikmennirnir enn með landsliði sínu þegar liðið ætti að spila fyrri leikinn í 16 liða úrslitum.

Stjórn Þórs/KA lýsir yfir miklum vonbrigðum með málalyktir og furðar sig á að mótafyrirkomulag aðildarsambanda FIFA skuli ekki betur skipulagt en svo að verkefni á borð við Meistaradeild Evrópu og álfukeppnir landsliða fyrir HM skuli rekast á með þessum hætti og bitna á árangri félagsliða. Þessi staða skerðir í senn atvinnuréttindi umræddra leikmanna og takmarkar möguleika félagsliða til að ráða til sín leikmenn frá fjarlægum löndum.

Þessi niðurstaða er auðvitað gríðarleg vonbrigði fyrir þær sjálfar, sem og liðið allt og stuðningsfólk. Stjórn Þórs/KA vill árétta að leikmennirnir þrír eiga alla okkar samúð vegna þeirrar erfiðu stöðu sem þær eru í og styður þær heilshugar til góðra verka. Þær hafa átt stóran þátt í frábærum árangri liðsins undanfarin misseri, eins og áhugafólk um knattspyrnu þekkir. Rétt er einnig að taka fram að þær eru sjálfar mjög leiðar yfir þessari stöðu og hefðu, ef þær hefðu fengið nokkru um það ráðið, viljað taka þátt í báðum verkefnum, klára tímabilið með Þór/KA og spila með mexíkóska landsliðinu í CONCACAF-keppninni.

Stjórn Þórs/KA lýsir yfir fullum skilningi á vilja leikmannanna til að spila með landsliði sínu og leggja sitt af mörkum til að liðið komist á HM í Frakklandi 2019, en harmar um leið óbilgirni mexíkóska sambandsins. Leikmennirnir eru að ljúka tímabilinu á Íslandi og eru í fullu leikformi, hafa að auki nýlega spilað tvo æfingaleiki með landsliðinu, og hefðu því hæglega getað fengið tilslökun frá sambandinu til að ljúka tímabilinu með sínu félagsliði án þess að það bitnaði á framlagi þeirra til landsliðsins.

Þær Ariana Calderon, Bianca Sierra og Stephany Mayor hafa glatt okkur með frábærum tilþrifum, fagmennsku og vináttu á liðnum misserum og fá bestu þakkir frá Þór/KA fyrir framlag þeirra til velgengni liðsins. Frábærir leikmenn sem hafa lagt gríðarlega mikið af mörkum til liðsins og samherjanna. 

Þrátt fyrir þetta áfall leggjum við ekki árar í bát, enda hefur liðið á að skipa sterkum leikmönnum sem fylla munu skörð þeirra sem teknar eru frá okkur. Stjórnin og þjálfararnir bera fullt traust til þeirra leikmanna sem eftir eru og liðið heldur ótrautt út í þau verkefni sem ólokið er á þessu tímabili, berum höfuðið hátt og höfum trú á að við getum gert vel, eins og alltaf. 

Fyrir hönd Þórs/KA
Nói Björnsson, formaður stjórnar
Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari

mbl.is