Jeppe fór niður og upp

Jeppe Hansen, lengst til hægri, í leik með ÍA.
Jeppe Hansen, lengst til hægri, í leik með ÍA. mbl.is/Árni Sæberg

Tímabilið er búið að vera óvenjulegt hjá danska knattspyrnumanninum Jeppe Hansen þar sem hann var hluti af liði sem er löngu fallið úr Pepsi-deildinni og er hluti af liði sem er búið að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni að ári.

Hansen, sem er 29 ára gamall og hóf sinn íslenska feril með Stjörnunni fyrir fimm árum, lék fyrstu 10 leikina með Keflvíkingum í Pepsi-deildinni þar sem hann skoraði ekki mark en var síðan lánaður til ÍA í Inkasso-deildinni.

Keflavík er fyrir löngu fallin úr Pepsi-deildinni þar sem liðið hefur ekki unnið leik en Skagamenn tryggðu sér sæti í deild þeirra bestu um síðustu helgi. Hansen hefur komið við sögu í 9 leikjum ÍA og hefur í þeim skorað 6 mörk. Í fyrra fór Hansen upp í Pepsi-deildina með Keflvíkingum þar sem hann skoraði 15 mörk í 21 leik.

Jeppe Hansen í leik með Keflavík gegn Breiðabliki.
Jeppe Hansen í leik með Keflavík gegn Breiðabliki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var virkilega erfitt að vera í Keflavík í vor vegna þess að við töpuðum, töpuðum og töpuðum og eins var þetta erfitt utan vallar. Keflavík vildi spara peninga og ÍA vildi gjarnan fá mig að láni. Svo ég stökk á að prófa eitthvað annað. Ég sé ekki eftir því þar sem þetta hafa verið góðir mánuðir og góðir leikir,“ segir Jeppe Hansen í viðtali við danska netmiðillinn bold.dk.

„Ég var orðinn leiður á fótboltanum í sumar en það hefur allt lagast eftir dvöl mína hjá ÍA og ég er ánægður að geta endað tímabilið með þessum hætti,“ segir Hansen, sem heldur til síns heima í Danmörku eftir síðustu umferðina í Inkasso-deildinni sem verður á laugardaginn. Hann hikar ekki við að mæla með íslensku ævintýri til annarra leikmanna.

„Það hafa verið góðir og slæmir tímar en heilt yfir hef ég verið mjög ánægður að vera hérna og ég mæli með því fyrir leikmenn að koma hingað. Það er gaman að prófa að búa í útlöndum og lifa af áhugamáli sínu. Nú hef ég upplifað nóg og vil nú fara heim til Danmerkur,“ segir Hansen, sem hefur skorað 38 mörk í 87 deildarleikjum, 17 í 57 leikjum í efstu deild og 21 mark í 30 leikjum í næstefstu deild.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert