Svekkjandi tap gegn Norður-Írum

Arnór Sigurðsson með boltann í leiknum í dag.
Arnór Sigurðsson með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 21. árs og yngri, tapaði fyrir Norður-Írum í 2. riðli undankeppni EM í Árbænum í dag en leiknum lauk með 1:0-sigri gestanna frá Norður-Írlandi. Sigurmarkið kom á lokamínútum leiksins.

Íslenska liðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og átti nokkrar hættulegar skottilraunir sem Conor Hazard, markmaður Norður-Íra, varði oft á tíðum vel í markinu. Óttar Magnús Karlsson fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar Kristófer Kristinsson lagði boltann snyrtilega á Óttar sem var einn fyrir opnu marki en Daniel Ballard bjargaði meistaralega á marklínu og staðan því markalaus í hálfleik.

Seinni hálfleikur einkenndist af miklum barningi og var mikið um stöðubaráttur inni á vellinum. Sóknarleikur íslenska liðsins var ekki jafn hnitmiðaður og í fyrri hálfleik og gekk báðum liðum illa að skapa sér afgerandi marktækifæri. Það var svo Daniel Ballard sem skoraði sigurmark leiksins á 89. mínútu eftir hornspyrnu David Parkhouse. Ballard mætti í svæðið og stangaði boltann í netið af stuttu færi en varnarmenn íslenska liðsins voru einfaldlega of lengi að bregðast við.

Ísland er áfram í fjórða sæti 2. riðils með 11 stig en Norður-Írar eru í öðru sætinu með 17 stig og eiga fína möguleika á því að komast í umspil. Lokaleikur Íslands í riðlinum er gegn Spánverjum, 16. október næstkomandi í Árbænum.

Ísland U21 0:1 Norður-Írland U21 opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við í Árbænum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert