Huginn og Höttur sameinast

Huginsmenn, í gulu og svörtu, spiluðu í 1. deild 2016.
Huginsmenn, í gulu og svörtu, spiluðu í 1. deild 2016. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lið Hugins frá Seyðisfirði og Hattar frá Egilsstöðum sem féllu bæði úr 2. deild karla í knattspyrnu í sumar ætla að sameinast fyrir næsta tímabil í 3. deildinni en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félögin birtu í kvöld.

Þetta þýðir þá um leið að lið Álftaness, sem hafnaði í fjórða sæti 4. deildar í ár, fær sætið sem losnar í 3. deild en Reynir úr Sandgerði, Skallagrímur og Kórdrengir höfðu tryggt sér sæti í 3. deild.

Þetta verður í annað skipti sem grannliðin sitthvoru megin við Fjarðarheiðina sameina lið sín en þau voru með sameiginlegt lið á árunum 1999 til 2002. Frá þeim tíma hafa þau hinsvegar teflt fram sitt hvoru liðinu sem bæði hafa náð að spila í 1. deild, Höttur árið 2012 og Huginn árið 2016.

Tilkynningin er svohljóðandi:

Höttur Rekstrarfélag og Knattspyrnudeild Hugins ætla að spila undir sameiginlegum merkjum í 3. deild karla næsta sumar.

Þetta er niðurstaða eftir um tveggja mánaða viðræður á milli félaganna. Stjórnir beggja félaga eru sannfærðar um að þetta sé rökrétt skref og að þarna sé verið að tryggja það að hægt sé að efla alla umgjörð í kringum knattspyrnuna.

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að bæði lið féllu um deild síðasta sumar og stóð því til að þau bæði myndu spila í 3. deild.

Með samstarfi fæst eitt öflugt lið beggja megin Fjarðarheiðar sem hefur tækifæri til þess að bæta sig og þróast en liðið er ríkt af ungum leikmönnum í bland við nokkra eldri. Hvort þetta sé fyrirboði um að sveitarfélögin muni seinna sameinast skal látið ósagt en þau sem standa á bakvið þessa ákvörðun eru í það minnsta öll sammála um að með samstarfi séu flestir vegir færir.

Þjálfarar liðsins Viðar Jónsson og Brynjar Árnason hafa verið upplýstir og hlynntir viðræðunum sem að loks er lokið.

Það er von félaganna að Höttur/Huginn verði jafn vel tekið og Hugin og Hetti hefur verið gert af heimamönnum undanfarna áratugi. Nú erum við öll í sama liðinu, sameinuð erum við sterkari en sundruð.

Sjáumst á vellinum næsta ári.

Fyrir hönd Knattspyrnudeildar Hugins og Rekstrarfélags Hattar

Sveinn Ágúst Þórsson
Guðmundur Bj. Hafþórsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert