„Vonlaust starf“ Íslands heillaði

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta.
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta. mbl.is/Hari

„Ég vissi þegar ég tók við að þetta yrði erfitt,“ sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, í viðtali við sænska miðilinn Aftonbladet sem birtist í dag. Hann kemur víða við í viðtalinu.

Hamrén segir að hann beri mikla virðingu fyrir íslensku íþróttafólki og að árangurinn sé betri en í heimalandinu, Svíþjóð.

„Ég er mjög hrifinn af íþróttalífinu á Íslandi. Þar er hæfileikaríkt íþróttafólk með gott hugafar sem er tilbúið að gera allt sem þarf til þess að skara fram úr. Svíar eru líka með gott hugarfar, en miðað við hvað Ísland á marga framúrskarandi íþróttamenn miðað við höfðatölu þá er árangurinn betri hjá þeim,“ sagði Hamrén, sem er spurður af hverju hann hafi tekið við Íslandi.

„Það eru nokkrar ástæður. Mig langaði til þess að starfa á hæsta stigi fótboltans en vildi einnig fá áskorun. Ísland náði frábærum árangri á EM og stóð sig vel í undankeppni HM þó að árangurinn á lokamótinu hafi verið undir væntingum. Nú vill Ísland komast á þriðja stórmótið í röð og það eru margar stórþjóðir sem hafa ekki náð því. Þess vegna finnst fólki ég klikkaður að hafa tekið þetta starf. En áskorunin heillaði,“ sagði Hamrén.

Erik Hamrén.
Erik Hamrén. mbl.is/Kristinn Magnússon

Slæm úrslit ekki bara komin frá mér

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, lét hafa eftir sér þegar Hamrén tók við að hann væri að taka við „vonlausu starfi“ því liðið hefði þegar náð þeim hæðum sem það gæti. En hvað finnst honum um ummæli Lars?

„Lasse er vitur maður og hann veit manna best hvernig er að vinna með íslenska landsliðinu. Og ég vissi þegar ég tók við að þetta yrði erfitt. En ef við náum að halda leikmönnunum heilum þá er allt mögulegt. Væntingarnar hafa breyst síðan hann var með liðið. Þá var allt jákvætt og minni væntingar, en nú erum við gagnrýndir fyrir tap gegn Belgíu þó þeir séu besta lið heims,“ sagði Hamrén.

Ísland vann ekki leik á árinu 2018 og Hamrén undirstrikar að þessi slæmu úrslit séu nú ekki bara honum að kenna.

„Liðið hafði tapað sex leikjum og gert þrjú jafntefli, og þótt liðið hafi ekki unnið leik hjá mér þá byrjaði þetta ekki eftir að ég tók við. En þetta var hluti af áskoruninni,“ sagði Hamrén.

Erik Hamrén.
Erik Hamrén. mbl.is/Kristinn Magnússon

Langt síðan leikmenn voru gagnrýndir

Hamrén fékk ekki draumabyrjun í fyrsta leik sem landsliðsþjálfari Íslands, sem var 6:0 tap fyrir Sviss í Þjóðadeildinni. Hann bað íslensku þjóðina afsökunar í leikslok.

„Þetta var niðurlægjandi. Svona úrslit eru ekki skemmtileg, hvort sem þetta er í fyrsta leik eða seinna. Leikmennirnir hreinlega gáfust upp síðasta hálftímann. Það kom mér á óvart. Leikmennirnir voru líka gagnrýndir heima á Íslandi og höfðu varla lent í því í mörg ár,“ sagði Hamrén.

En hvernig tekur hann gagnrýni?

„Ef ég tæki alla gagnrýni inn á mig þá hefði ég ekki verið svona lengi í þessu starfi, í yfir 35 ár og þar af í tvo áratugi í áberandi stöðum. Ég er fyrst og fremst mjög gagnrýninn á sjálfan mig. Þú verður líka að horfa á það hver er að gagnrýna þig, því það eru svo margir sem hafa skoðanir á fótbolta. Ef ég er sammála gagnrýninni þá tek ég hana til mín, en ef þú tekur henni illa þá ertu ekki í réttu starfi,“ sagði Hamrén við Aftonbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert