Atli og Júlíus sömdu við Víking

Atli Hrafn ásamt Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings.
Atli Hrafn ásamt Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings. Ljósmynd/Víkingur Reykjavík

Knattspyrnudeild Víkings Reykjavíkur hefur samið við Atla Hrafn Andrason og Júlíus Magnússon um að leika með félaginu næstu tvö árin.

Atli Hrafn lék með Víkingi síðasta sumar, en hann kom að láni frá Fulham. Atli er fæddur árið 1999 og er uppalinn hjá KR. Hann á að baki 20 leiki fyrir meistaraflokka KR og Víkings og 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands. 

Atli Hrafn hefur fengið félagaskipti og verður löglegur með Víkingi þegar liðið mætir Breiðabliki í Lengjubikarnum á morgun.

Sömuleiðis náði Víkingur samkomulagi við SC Heerenveen FC um félagaskipti Júlíusar Magnússonar. Júlíus er miðjumaður sem fæddur er árið 1998 og hefur leikið fyrir U21 árs lið Heerenveen í Hollandi undanfarin ár og er fastamaður í U21 árs landsliði Íslands.

Júlíus fór frá Víkingi til Heerenveen árið 2015. Júlíus kemur til landsins um helgina og verður löglegur þegar Víkingur mætir Gróttu næstkomandi föstudag.

„Knattspyrnudeild Víkings fagnar að hafa samið við þessa ungu og efnilegu leikmenn og bindur miklar vonir um að þeir muni eiga bjarta framtíð hjá félaginu," segir í tilkynningu sem Víkingur sendi frá sér í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert