Laufey komin í KR

Laufey Björnsdóttir er gengin til liðs við KR.
Laufey Björnsdóttir er gengin til liðs við KR. mbl.is/Ómar

KR hefur fengið liðsstyrk fyrir komandi leiktíð í knattspyrnu kvenna. Miðjumaðurinn reyndi Laufey Björnsdóttir er komin til liðs við félagið.

Laufey, sem er þrítug, var síðast hjá HK/Víkingi en fékk sig lausa undan samningi þar eftir síðasta tímabil. Hún lék 17 af 18 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Áður var Laufey hjá Val í sex tímabil, en hún hefur einnig leikið með Fylki, Breiðabliki og Þór/KA/KS í efstu deild, þar sem hún lék sína fyrstu leiki sumarið 2004, þá 15 ára. Hún er með leikjahæstu leikmönnum efstu deildar hér á landi með 206 leiki og hefur skorað í þeim 25 mörk.

HK/Víkingur og KR voru á svipuðum slóðum í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en HK/Víkingur endaði þá í 7. sæti, stigi fyrir ofan KR sem forðaði sér frá falli í lok tímabilsins.

KR hefur styrkt vel hjá sér hópinn undanfarið en Guðmunda Brynja Óladóttir kom fyrir skömmu til Vesturbæjarliðsins frá Selfossi.

mbl.is