„Vitum hvernig við eigum að tækla þetta“

mbl.is

Staðan á mér er nokkuð góð,“ segir Alfreð Finnbogason, aðalframherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem eftir glímu við kálfameiðsli síðasta mánuðinn getur leikið með Íslandi gegn Andorra á föstudagskvöld þegar undankeppni EM hefst.

„Ég er ánægður með að hafa spilað um helgina og kem nokkuð ferskur inn í þetta þó að óskastaðan væri auðvitað að síðustu tvo mánuði hefði ég spilað alla leiki. Maður fær ekki alltaf allt eins og maður vill. Ég er kominn til að nýtast liðinu eins mikið og ég get í þessum tveimur leikjum, þó að ég viti að ég er ekki enn við 100% heilsu,“ segir Alfreð, en eftir leikinn í Andorra mætir Ísland næst Frakklandi í París á mánudag.

Eftir að Alfreð lék tæpan klukkutíma í 3:1-sigri Augsburg á Hannover um helgina má ætla að hann verði í byrjunarliði Íslands gegn Andorra. Grindvíkingurinn tekur undir það að leikur við Andorra, sem er í 132. sæti heimslista FIFA, sé ólíkur öðrum verkefnum íslenska landsliðsins mörg síðustu ár:

„Við höfum í raun ekki oft verið með liðum í þessum styrkleikaflokki, þegar maður horfir á síðustu ár. Ég get ekki borið Kýpur saman við Andorra, Kýpur er miklu betra lið, eða Kósóvó sem er líka miklu betra lið en fólk áttar sig á. Við höfum ekki farið oft í leiki við lið sem er svona neðarlega á heimslistanum. Við setjum þær kröfur á okkur að við vinnum leik á móti þeim. Á sama tíma þurfa hlutirnir að ganga vel upp hjá okkur.“

Nánar er fjallað um íslenska landsliðið í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert