Í DNA Íslendinga að gefa ekkert eftir

Didier Deschamps gerði Frakkland að heimsmeistara síðasta sumar.
Didier Deschamps gerði Frakkland að heimsmeistara síðasta sumar. AFP

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, segir liðið ætla sér að sýna betri leik gegn Íslandi í París í kvöld en þegar liðin gerðu 2:2-jafntefli í vináttulandsleik í Guingamp í október síðastliðnum.

„Svona lagað gerist. Við viljum ekki afsaka okkur en þetta var æfingaleikur. Þeir gerðu mjög vel en ekki við. Ég vissi það þá að Ísland er gott lið og erfitt fyrir okkur, og ég hugsa það sama núna. Við ætlum að vera betri núna. Það er í þeirra DNA að gefa aldrei neitt eftir, þeir berjast allan tímann og við verðum að vera búnir undir það,“ sagði Deschamps á blaðamannafundi í gær. Hann var jafnframt spurður út í 5:2-sigurinn á Íslendingum í 8-liða úrslitum EM 2016, þar sem Frakkar gerðu í raun út um leikinn í fyrri hálfleik, og hvort hann byggist við sams konar leik af hálfu Íslands nú:

„Það eru þrjú ár frá 2016. Við spiluðum vel í þessum leik. Ísland hafði komið mörgum á óvart en við gátum greint leik þeirra vel á mótinu, hvað þeir voru sterkir í aukaspyrnum og löngum innköstum, sem ollu mörgum öðrum liðum vandamálum. Það eru margir enn í liðinu síðan þá, rétt eins og hjá okkur. Þeir fara kannski ekki eins beina leið fram núna, spila meira með jörðinni í stað þess að senda háar sendingar fram á duglegu framherjana sem voru þá. Þeir gera kannski minna af því núna,“ sagði Deschamps.

mbl.is