Stórsigur Breiðabliks í toppslagnum

Breiðablik fagnar fyrsta marki leiksins sem Hildur Antonsdóttir skoraði.
Breiðablik fagnar fyrsta marki leiksins sem Hildur Antonsdóttir skoraði. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Meistarar Breiðabliks unnu öruggan sigur á Þór/KA, 4:1, þegar liðin mættust á Akureyri í 4. umferð úrvalsdeildar kvenna í fótbolta.

Breiðablik er því áfram með fullt hús stiga eða 12 stig á toppi deildarinnar en Þór/KA er með sex stig eftir tvo sigra en töp gegn Breiðabliki og Val.

Leikurinn í kvöld byrjaði rólega en gestirnir úr Kópavogi voru þó sterkari aðilinn. Þegar um hálftími var liðinn af leiknum skoraði Hildur Antonsdóttir fyrsta mark leiksins. Eftir að varnarmaður Þórs/KA hafði misst boltann klaufalega barst boltinn út í teig á Hildi sem skoraði með hörkuskoti í slána og inn.

Eftir þetta urðu Blikar sterkari aðilinn á vellinum og sex mínútum síðar skoraði Agla María Albertsdóttir annað mark Breiðabliks með skoti langt utan af velli. Staðan 0:2 í hálfleik.  

Seinni hálfleikur byrjaði ekki ólíkt þeim fyrri. En á 53. mínútu skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir þriðja mark Breiðabliks sem gerði í raun út um leikinn.

Heimakonur náðu þó að klóra í bakkann á 69. mínútu þegar Stephany Mayor skoraði eftir sendingu frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur. Eftir það vöknuðu heimakonur aðeins og fóru að spila betur en á 82. mínútu skoraði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir gott mark úr aukaspyrnu sem gerði endanlega út um leikinn.

Þór/KA 1:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við. Þetta er að fjara út hérna.
mbl.is