Mikið undir í Laugardalnum

Geoffrey Castillion var á skotskónum síðast þegar KR og Víkingur …
Geoffrey Castillion var á skotskónum síðast þegar KR og Víkingur mættust í lokaumferð deildarinnar síðasta sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Víkingur Reykjavík og KR mætast í 6. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Eimskipsvellinum í Laugardal í dag klukkan 18. Víkingar eru í ellefta sæti deildarinnar með 3 stig en KR er í fjórða sætinu með 8 stig fyrir leiki dagsins.

Það er allt undir í Laugardalnum en með sigri geta Víkingar lyft sér úr fallsæti og KR getur að sama skapi skotist upp í annað sæti deildarinnar með sigri í dag. Víkingar eru ennþá án sigurs eftir fyrstu fimm umferðirnar en liðið hefur gert jafntefli við ÍBV, FH og Val í upphafi móts.

KR-ingar hafa unnið tvo leiki í sumar, gert tvö jafntefli og tapað einum leik. KR vann HK í síðustu umferð í Kórnum og ÍBV í Eyjum í annarri umferðinni liðið hefur gert jafntefli við Fylki og Stjörnuna og þá töpuðu Vesturbæingar óvænt fyrir Grindavík í Grindavík.

Í síðustu fimm viðureignum liðanna hafa Víkingar tvívegis fagnað sigri, einu sinni hafa liðin gert jafntefli og tvívegis hefur KR fagnað sigri. Víkingar unnu 1:0-sigur í seinni umferðinni, síðasta sumar, þegar liðin mættust í efstu deild þar sem Bjarni Páll Linnet skoraði sigurmark leiksins í Vesturbænum.

Þá unnu Vesturbæingar sigur í lokaumferð deildarinnar í Víkinni síðasta sumar, 3:2, í miklum markaleik. Rick Ten Voorde kom Víkingum yfir á 21. mínútu en Óskar Örn Hauksson jafnaði metin, þremur mínútum síðar. Atli Sigurjónsson tvöfaldaði forystu KR áður en Halldór Smári Sigurðsson skoraði sjálfsmark um miðjan síðari hálfleikinn. Geoffrey Castillion klóraði í bakkann fyrir Víkinga á 70. mínútu en lengra komust þeir ekki og KR fagnaði sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert