Leiknir vann toppslaginn

Leiknismenn fagna í leikslok.
Leiknismenn fagna í leikslok. Ljósmynd/Albert Kemp

Leiknir F. er kominn upp í toppsæti 2. deildar karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á Selfossi í toppslag deildarinnar í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í dag. 

Sæþór Ívan Viðarsson kom Leikni yfir snemma leiks áður en Kenan Turudija jafnaði metin á 67. mínútu. Unnar Ari Hansson skoraði svo sigurmarkið á 75. mínútu. Leiknir er nú með 15 stig í toppsætinu og Selfoss í öðru sæti með 13 stig. 

Víði mistókst að fara upp í toppsætið þar sem liðið tapaði fyrir Vestra á heimavelli, 0:1. Joshua Signey skoraði sigurmarkið á 31. mínútu. Víðir er nú með 13 stig, eins og Selfoss og nú Vestri.

Völsungur er sömuleiðis með 13 stig eftir flottan sigur á KFG á útivelli. Kristófer Konráðsson og Magnús Björgvinsson komu KFG í 2:0 eftir aðeins sex mínútur. Kaelon Fox minnkaði muninn á 29. mínútu og þeir Elvar Baldvinsson og Ásgeir Kristjánsson tryggðu Völsungi sigur með mörkum í seinni hálfleik. 

ÍR vann mikilvægan 2:0-heimasigur á Fjarðabyggð og fjarlægðist botnsætin í leiðinni. Mörk ÍR-inga komu sitthvorumegin við hálfleikinn og voru skoruð af Ívani Óla Santos og Halldóri Anarsyni. ÍR nú með átta stig í níunda sæti. 

Tindastóll náði í sitt fyrsta stig á heimavelli á móti Þrótti V. Tindastóll komst tvisvar yfir með mörkum Sverris Hrafns Friðrikssonar og Konráðs Freys Sigurðssonar en Andy Pew og Ingvar Ásbjörn Ingvarsson jöfnuðu fyrir Þrótt. Pape Mamadou Faye fékk beint rautt spjald hjá Þrótti á 86. mínútu. 

Umferðinni lýkur með leik Kára og Dalvíkur/Reynis annað kvöld.

Staðan:

  1. Leiknir F. 15
  2. Selfoss 13
  3. Víðir 13
  4. Völsungur 13
  5. Vestri 12
  6. Fjarðabyggð 9
  7. Þróttur V. 9
  8. KFG 9
  9. ÍR 8
  10. Dalvík/Reynir 7
  11. Kári 5
  12. Tindastóll 1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert