Óvissuástand í Keflavík

Sveindís Jane Jónsdóttir er eftirsótt af stærri liðum landsins eftir …
Sveindís Jane Jónsdóttir er eftirsótt af stærri liðum landsins eftir frábæra frammistöðu í sumar. mbl.is/Hari

Sveindís Jane Jónsdóttir, framherji Keflavíkur sem féll úr úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu á dögunum, er eftirsóttur biti þessa dagana. Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, staðfesti í samtali við mbl.is í morgun að tvö lið hefðu nú þegar óskað eftir því að ræða við framherjann.

Sveindís er fædd árið 2001 en hún er samningsbundin Keflavík til ársins 2021. Hún skoraði sjö mörk í 17 leikjum með liðinu í efstu deild í sumar og var einn mikilvægasti leikmaður liðsins en bæði ÍBV og Selfoss hafa áhuga á leikmanninum. Þá herma heimildir mbl.is að fleiri lið hafi áhuga á leikmanninum sem er fastamaður í U19 ára landsliði Íslands.

Sveindís er uppalin í Keflavík og á að baki 80 leiki fyrir félagið í öllum keppnum, þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur skorað 42 mörk í 58 leikjum í 1. deildinni á sínum ferli en Gunnar Magnús, þjálfari liðsins, sagði að framtíð framherjans ætti að skýrast á næstu dögum. Þá er einnig óvissa með framtíð Natöshu Moru Anasi, fyrirliða liðsins, sem skoraði sex mörk í 17 leikjum í sumar.

Gunnar Magnús, þjálfari liðsins, mun ræða við stjórn knattspyrnudeildarinnar í vikunni um framtíð sína en hann íhugar það nú hvort hann ætli sér að halda áfram með liðið. Keflavík gæti því misst tvo lykilmenn og þjálfara sinn í sömu vikunni en þjálfarinn ítrekaði að hann ætti allt eins von á því að leikmannahópur Keflavíkur myndi standa saman eftir fallið og taka slaginn í 1. deildinni næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert