Góð prófraun og undirbúningsverkefni

Kjartan Henry Finnbogason (11) skoraði sigurmarkið og Stefán Teitur Þórðarson …
Kjartan Henry Finnbogason (11) skoraði sigurmarkið og Stefán Teitur Þórðarson (18) og Bjarni Mark Antonsson (8) voru báðir í fyrsta sinn í byrjunarliði í A-landsleik. Ljósmynd/KSÍ

Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, sagði við mbl.is eftir sigurinn á El Salvador í vináttulandsleiknum í Carson í Kaliforníu í nótt, 1:0, að verkefnið hefði í heildina verið mjög gott fyrir liðið og leikmennina.

Ísland vann þar með báða leiki sína í ferðinni en aðfaranótt fimmtudags vann liðið sigur á Kanada, 1:0.

„Við fengum frábært verkefni fyrir strákana í dag. Aðstæðurnar á LA Galaxy-vellinum voru mjög góðar, það var þokkalega mætt og góð stemmning á vellinum. Þetta var prófraun fyrir ungu strákana og gott undirbúningsverkefni fyrir þá sem eru hvað næst umspilsverkefninu,“ sagði Freyr.

Hann sagði að leikurinn hefði spilast vel fyrir íslenska liðið. „Við sköpuðum góð færi í fyrri hálfleik og Kári skoraði gott mark eftir hornspyrnu Óttars en það var mjög umdeilt að mínu mati að það skyldi vera dæmt af. Sóknarmenn El Salvador búa yfir miklum hraða og þeir ógnuðu nokkru sinnum í skyndisóknum án þess að skapa sér færi.

Í síðari hálfleik var mikið um stopp í leiknum. Leikmyndin sú sama fyrir utan það að leikmenn El Salvador fóru meira að reyna langskot sem voru ekki hættuleg. Sigurmark Kjartans var mjög gott mark eftir að Mikael vann boltann í góðri pressu framarlega á vellinum, Mikael gerði vel að opna fyrir Kjartan sem plataði varnarmanninn og þetta var mjög vel afgreitt í fjærhornið. Hannes varði síðan vel þegar El Salvador fékk sitt besta færi,“ sagði Freyr og kvaðst mjög ánægður með verkefnið í heild sinni.

„Já, það var mjög gott að geta gefið mörgum leikmönnum tækifæri og þeir stóðu sig vel. Eldri leikmennirnir sem spila heima fengu góðan undirbúning fyrir marsverkefnið þannig að við förum sáttir heim,“ sagði Freyr Alexandersson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert