Breiðablik fær nýjan markvörð

Gunnleifur Gunnleifsson hefur varið mark Breiðabliks undanfarin ár en liðið …
Gunnleifur Gunnleifsson hefur varið mark Breiðabliks undanfarin ár en liðið hefur nú fengið tvo nýja markverði í vetur. mbl.is/Hari

Breiðablik hefur keypt knattspyrnumanninn og markvörðinn Brynjar Atla Bragason frá Njarðvík en miðillinn 433.is greinir frá þessu.

Brynjar er tvítugur og varði mark Njarðvíkur í 1. deildinni á síðustu leiktíð en liðið féll. Brynjar hefur verið eftirsóttur og staðfesti Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í viðtali við Fótbolti.net að félagið hefði áhuga á að fá markvörðinn til liðs við sig.

Hjá Breiðablik eru þeir Anton Ari Einarsson og Gunnleifur Gunnleifsson fyrir í markvarðarstöðunni og því ekki ólíklegt að Brynjar fari til annars liðs að láni í sumar. Hann á leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Blikar hafa bætt við sig nokkrum mannskap í vetur. Brynjar er ekki fyrsti markvörðurinn til að semja við liðið en Anton Ari Einarsson kom úr Val og þá hafa Blikar endurheimt þá Oliver Sigurjónsson og Höskuld Gunnlaugsson heim úr atvinnumennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert