Eftirsóttur framherji til KA

Jibril Abubakar með Óla Stefáni Flóventssyni, þjálfara KA.
Jibril Abubakar með Óla Stefáni Flóventssyni, þjálfara KA. Ljósmynd/KA

Knattspyrnudeild KA hefur fengið hinn stóra og stæðilega Jibril Abubakar að láni frá Midtjylland, toppliði dönsku úrvalsdeildarinnar. Gildir lánssamningurinn út ágústmánuð. 

Abubakar, sem er tvítugur Nígeríumaður og 193 sentímetrar á hæð, var undir smásjá stórliða á síðustu leiktíð og voru félög á borð við Juventus og Leicester að fylgjast með honum. Hann hefur ekki leikið með aðalliði Midtjylland en verið í unglingaliðum félagsins undanfarin tvö ár.

KA þurfti á framherja að halda þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson leikur ekki með liðinu á leiktíðinni þar sem hann sleit krossband. 

„Það verður áhugavert að sjá hvernig þessi spennandi leikmaður aðlagast KA-liðinu og íslenska boltanum en Jibril er mættur norður og verður vonandi kominn með leikheimild sem fyrst. Við bjóðum hann velkominn í KA!“ segir í tilkynningu frá KA

mbl.is