Ein sú markahæsta lætur staðar numið

Harpa Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir …
Harpa Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir afar farsælan feril. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnukonan Harpa Þorsteinsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í bili en þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Heimavöllurinn sem er á dagskrá fótbolta.net. Harpa er ólétt að sínu þriðja barni en hún á að baki 252 leiki í efstu deild með Stjörnunni og Breiðabliki þar sem hún hefur skorað 181 mark.

„Mér finnst mjög erfitt að segja að ég hafi lagt skóna á hilluna en ég get samt alveg sagt það. Ég er búin að leggja skóna á hilluna en þeir eru ekki límdir þar. Ef mig langar einhvern tímann aftur í fótbolta þá geri ég það,“ sagði Harpa í nýjasta þætti Heimavallarins.

„Það er ekki það að mig langi ekki að spila fótbolta. Ég væri mikið til í að spila áfram og eins lengi og ég get. Launin og umhverfið bjóða kannski ekki alveg upp á það fyrir stelpur að vera 100% í fótbolta og með fjölskyldu. Það er pínu leiðinlegt en þetta er staðan og ég tek þessu verkefni líka fagnandi,“ bætti Harpa við í Heimavellinum.

Harpa, sem er 33 ára gömul, á að baki 67 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 19 mörk. Hún hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni og þá hefur hún þrívegis orðið bikarmeistari með Garðabæjarliðinu. Hún hefur þrívegis verið valin besti leikmaður Íslandsmótsins og framherjinn er í þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn efstu deildar frá upphafi, ásamt því að vera sú næstleikjahæsta í deildinni frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert