Sá markahæsti fékk ekki að fljúga

Gary Martin skoraði 14 mörk í fimmtán leikjum í efstu …
Gary Martin skoraði 14 mörk í fimmtán leikjum í efstu deild á síðustu leiktíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gary Martin, markahæsti leikmaður úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á síðustu leiktíð og leikmaður ÍBV, ætlaði sér að ferðast frá Englandi til Íslands í dag. Martin lék sem lánsmaður hjá Darlington í heimabæ sínum í janúar en hann átti að snúa aftur til Vestmannaeyja í dag.

Framherjanum var hins vegar ekki hleypt um borð í flugvél EasyJet þar sem reglur á Englandi hafa nú verið hertar vegna kórónuveirunnar. EasyJet vildi ekki hleypa Martin um borð nema hann gæti sýnt fram á staðfesta búsetu á Íslandi eða þá að hann væri með tilskilin réttindi frá íslenska sendiráðinu á Englandi um að mega fljúga til landsins.

Martin staðfesti í samtali við vefmiðlinn 433.is að hann biði nú eftir leyfi frá íslenska sendiráðinu um að mega ferðast til landsins og vonast hann til þess að komast til Íslands síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert