Nýliðarnir stóðu í meisturunum

Guðný Árnadóttir úr Val og Laura Hughes úr Þrótti í …
Guðný Árnadóttir úr Val og Laura Hughes úr Þrótti í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn nýliðum Þróttar í annarri umferð Pepsi Max deildar kvenna á Eimskipsvellinum í kvöld í 2:1 sigri. 

Nýliðarnir stóðu vel í meisturunum en staðan var 0:0 fyrstu 60 mínúturnar. Þá skoraði Elín Metta Jensen fyrir Val og varamaðurinn Diljá Ýr Zomers bætti við marki átta mínútum síðar, nýkomin inná sem varamaður.

Linda Líf Boama, sem einnig kom inn á sem varamaður, minnkaði muninn fyrir  Þrótt með marki á 78. mínútu.

Valskonur byrjuðu leikinn af krafti fyrstu mínútúrnar, áttu tvö skot í slá og eitt í stöngina. Eftir fyrsta korterið tóku Þróttararnir heldur betur við sér og voru öflugri aðilinn fram að hálfleik. Fyrirliðinn Álfhildur Rósa Kjartansdóttir stóð sig frábærlega á miðjunni og tók miðjumenn Vals hálfpartinn út úr leiknum. Hin ástralska Laura Hughes lék einnig gríðarlega vel í kvöld og var áberandi á vellinum. 

Valskonur tóku sig heldur betur í gegn eftir hálfleik. Þær pressuðu framarlega og ógnuðu Þrótturunum aftur og aftur. Þegar mark Elínar Mettu kom loksins hafði leikurinn þó verið í nokkrum dvala í einhverjar mínútur og hvorugur aðilinnn virtist líklegri til að skora. Eftir mark Elínar voru yfirburðir Vals miklir framan af og Þróttararnir virtust þreyttir. 

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttara, gerði þó nokkrar breytingar á liði sínu í stöðunni 0:2 og Þróttararnir tóku við sér að nýju. Síðasta korterið var leikurinn nokkuð jafn og aukinn kraftur færðist yfir lið Þróttar þegar Linda Líf skoraði eftir afleit mistök Söndru í marki Vals. 

Þróttararnir náðu þó ekki að skapa sér nein tækifæri til að jafna metin og Íslandsmeistarar Vals eru því með fullt hús stiga eftir 2 umferðir, en Þróttur engin. 

Þróttur R. 1:2 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Valur hafði betur í kvöld eftir að hafa verið sterkari aðilinn í síðari hálfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert