Leiknismenn fyrstir að vinna Fram - Annar sigur Víkings

Leiknismenn gerðu góða ferð í Safamýri.
Leiknismenn gerðu góða ferð í Safamýri. mbl.is/Árni Sæberg

Fram tapaði sínum fyrstu stigum í Lengjudeild karla í fótbolta í dag er Leiknir Reykjavík kom í heimsókn í Safamýrina og vann 5:2-sigur. 

Ólafur Íshólm Ólafsson markvörður Fram skoraði sjálfsmark á 8. mínútu og kom Leikni yfir og Vuk Oskar Dimitrijevic bætti við tveimur mörkum og kom Leikni í 3:0 áður en Sævar Atli Magnússon skoraði fjórða markið. 

Varamaðurinn Magnús Þórðarson lagaði stöðuna fyrir Fram með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla eftir rúmlega klukkutíma leik, 4:2, en Leiknismenn átti síðasta orðið því Máni Austmann Hilmarsson skoraði fimmta markið á 73. mínútu og þar við sat. Þrátt fyrir úrslitin eru Framarar í öðru sæti með tólf stig og Leiknir í  þriðja sæti með tíu stig. 

Magni er enn án stiga eftir að Víkingur Ólafsvík gerði góða ferð til Grenivíkur og vann 2:1-sigur. Harley Willard nýtti ekki vítaspyrnu á 26. mínútu, en liðsfélagi hans Gonzalo Zamorano skoraði fjórum mínútum síðar og kom víkingi yfir. 

Magni fékk vítaspyrnu á 45. mínútu og úr henni skoraði Kristinn Þór Rósbergsson og jafnaði metin. Víkingur átti hinsvegar lokaorðið því Harley Willard skoraði sigurmarkið á 84. mínútu og þar við sat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert