Eiður og Logi taka við FH-liðinu

Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson í Kaplakrika í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson í Kaplakrika í dag. Ljósmynd/FH

Eiður Smári Guðjohnsen og  Logi Ólafsson hafa verið ráðnir þjálfarar karlaliðs FH í knattspyrnu í stað Ólafs Helga Kristjánssonar en FH-ingar staðfestu þetta á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.

Þeir munu stýra liðinu út þetta keppnistímabil og taka við því í áttunda sæti Pepsi Max-deildarinnar en FH er með 7 stig eftir fyrstu fimm leiki sína í deildinni.

Fyrr í dag var staðfest að Ólafur væri farinn frá FH til að taka við danska B-deildarliðinu Esbjerg.

Eiður þreytir nú frumraun sína sem þjálfari hjá félagsliði en hann er aðstoðarþjálfari 21-árs landsliðs karla. Hann á að baki einhvern glæsilegasta feril íslensks knattspyrnumanns þar sem hann lék m.a. með Chelsea og Barcelona.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið aðstoðarþjálfari 21- árs landsliðsins.
Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið aðstoðarþjálfari 21- árs landsliðsins. mbl.is/Eggert

Logi lék með FH á sínum tíma og þjálfaði liðið árin 2000 og 2001 en á fyrra árinu vann liðið sigur í 1. deildinni og festi sig vel í sessi í efstu deild í kjölfarið. Hann hefur þjálfað meira og minna frá árinu 1987 þar sem hann var fyrst þrjú ár með kvennalið Vals sem vann fjóra stóra titla undir hans stjórn, og stýrði síðan Víkingi í Reykjavík næstu þrjú árin þar sem liðið varð Íslandsmeistari árið 1991.

Logi þjálfaði kvennalandslið Íslands 1993-94 og það komst þá í fyrsta skipti í 8-liða úrslit Evrópukeppninnar. Hann tók við karlaliði ÍA sem varð meistari undir hans stjórn 1995 en var síðan þjálfari karlalandsliðsins 1996-97. Hann tók aftur við ÍA frá 1997-99 en þaðan lá leiðin aftur í FH eins og áður er getið.

Þá var Logi um skeið með kvennalandsliðið á ný á árinu 2000 en var síðan aðstoðarþjálfari Lilleström í Noregi 2002. Hann var á ný með A-landslið karla á árunum 2003-2005, með Ásgeiri Sigurvinssyni. Logi tók við KR 2007 og stýrði liðinu til 2010 en þar vann hann bikarmeistaratitil árið 2008. Hann þjálfaði Selfyssinga 2011-2012, Stjörnuna 2013 og síðast Víking í Reykjavík árin 2017-18.

mbl.is