„Maður getur ekki gefist upp“

Sigríður Lára Garðarsdóttir fyrirliði FH með boltann.
Sigríður Lára Garðarsdóttir fyrirliði FH með boltann. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sigríður Lára Garðarsdóttir, fyrirliði FH, segir ekkert í stöðunni annað en að halda áfram og einbeita sér að næsta leik eftir að liðið tapaði 3:1 gegn Val á Hlíðarenda í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

Leik­ur­inn byrjaði frek­ar hægt og Valskon­ur héldu bolt­an­um vel án þess að ná að ógna FH-ing­un­um af nokk­urri al­vöru. Strax frá upp­hafi átti FH í basli, náði lítið að halda bolt­an­um og það vantaði mikið upp á gæði í send­ing­um og ein­víg­um. 

Elín Metta Jen­sen kom Valskon­um síðan yfir á 36. mín­útu og róður­inn varð enn þyngri fyr­ir FH. Fimm mín­út­um síðar kom Arna Ei­ríks­dótt­ir Valskon­um í 2:0 for­ystu og Valskon­ur stjórnuðu leikn­um al­gjör­lega í lang­an tíma eft­ir það. Bergdís Fanney Einarsdóttir skoraði svo þriðja mark Vals á 62. mínútu áður en Maddy Gonzalez minnkaði muninn á 78. mínútu. 

„Það er gríðarlega erfitt að koma hingað og spila við Val. Við lögðum leikinn vel upp og vörðumst sem ein heild. Mér fannst frammistaðan bara mjög góð miðað við að við höfum átt í smá erfiðleikum í deildinni. En þetta er allt að koma og maður getur ekki gefist upp. Það er þvílík þrautseigja í liðinu og við höldum bara áfram,“ sagði Sigríður í samtali við mbl.is eftir leikinn. 

FH átti í erfiðleikum með sóknarleikinn í kvöld og náði lítið sem ekkert að ógna marki Vals. 

„Við erum bara að byggja það upp á æfingum og reyna að fínpússa sóknarleikinn. Við lögðum upp með það fyrst og fremst í kvöld að verjast sem ein heild. Við ætluðum að láta þær koma á okkur og reyna að ná inn skyndisóknum eins og við gerðum þegar við skoruðum þannig að vonandi er þetta allt að koma hjá okkur,“ segir Sigríður spurð út í sóknarleikinn. 

Hún segir það hafa verið erfitt að elta leikinn eftir að Valur komst yfir. 

„Við höfum lent í þessu núna í sumar, að lenda undir og það er alltaf erfitt að koma til baka. Í síðasta leik lentum við undir og urðum smá andlausar en í kvöld endurstilltum við okkur bara og gáfumst aldrei upp. Það er þvílíkur karakter í þessu liði,“ segir Sigríður. 

FH er í botnsæti deildarinnar með 3 stig eftir 8 leiki. Sigríður segist þó vera bjartsýn yfir framhaldinu. 

„Við erum bara bjartsýnar, að fá nýjan leikmann sem getur vonandi hjálpað okkur að skora svo það er ekkert í stöðunni annað en að halda bara áfram.“

mbl.is