Stjarnan sló meistarana út – Fram vann í vítakeppni

Stjarnan er komin áfram eftir sigur í Fossvogi.
Stjarnan er komin áfram eftir sigur í Fossvogi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan og Fram eru komin áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta eftir nauma sigra í leikjum sínum í 16-liða úrslitunum í kvöld. 

Stjarnan hafði betur gegn ríkjandi bikarmeisturum Víkings á útivelli í úrvalsdeildarslag, 2:1. Emil Atlason kom Stjörnunni yfir strax á 1. mínútu og var staðan 1:0 þar til Hilmar Árni Halldórsson bætti við öðru marki Stjörnunnar á 54 mínútu. 

Nikolaj Hansen minnkaði muninn skömmu síðar fyrir Víkinga, en heimamenn náðu ekki að jafna þrátt fyrir fín tækifæri. Fékk Hansen sitt annað gula spjald og þar með rautt á 87. mínútu. 

Í Safamýri vann 1. deildar lið Fram óvæntan sigur á Fylki en úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki yfir á 44. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. Þórir Guðjónsson fékk gott tækifæri til að jafna fyrir Fram en hann nýtti ekki vítaspyrnu á 65. mínútu. 

Fylkismaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 72. mínútu og við það efldust Framarar og Brasilíumaðurinn Fred tryggði heimamönnum framlengingu með dramatísku jöfnunarmarki í uppbótartíma.

Ekkert var skorað í framlengingunni og eins og áður segir réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni. Í henni skoraði Fram úr fjórum spyrnum gegn þremur hjá Fylki, en Fred skaut Fram áfram með marki úr síðustu vítaspyrnunni. 

Brasilíumaðurinn Fred var hetja Framara.
Brasilíumaðurinn Fred var hetja Framara. mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert