Einn best spilaði landsleikur í langan tíma

Elín Metta Jensen skoraði sitt sjötta mark í undankeppni EM í knattspyrnu þegar Ísland og Svíþjóð mættust í toppslag F-riðils undankeppninnar á Laugardalsvelli í kvöld.

Leiknum lauk með 1:1-jafntefli en Elín Metta hefur skorað í öllum fimm leikjum Íslands í undankeppninni og jafnaði metin fyrir íslenska liðið í upphafi síðari hálfleiks.

Anna Anvegård kom Svíum yfir á 33. mínútu en Sofia Jakobsson átti þá fyrirgjöf frá hægri. Varnarmönnum íslenska liðsins tókst ekki að hreinsa frá marki og Anvegård snéri í teignum og þrumaði boltanum í nærhornið fram hjá Söndru Sigurðardóttur í marki íslenska liðsins.

Elín Metta Jensen jafnaði metin fyrir íslenska liðið með skalla á 61. mínútu en Sveindís Jane Jónsdóttir átti þá langt innkast frá hægri. Svíar misreiknuðu boltann, Elín kom sér fram fyrir varnarmenn Svía, og stangaði boltann í nærhornið úr markteignum.

Íslenska liðið er áfram í öðru sæti F-riðils með 13 stig eftir fyrstu fimm leiki sína með markatöluna 21:2.

Sænska liðið, sem fékk brons á HM 2019 í Frakklandi, er á toppi riðilsins með 13 stig einnig en markatöluna 25:2.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á fleygiferð.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á fleygiferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svekkjandi jafntefli

Íslenska liðið átti í fullu tréi við stöllur sínar frá Svíþjóð og þótt þær sænsku hafi verið sterkari í fyrri hálfleik var íslenska liðið með öll völd á vellinum í síðari hálfleik.

Þá skoraði Sara Björk Gunnarsdóttir fullkomlega löglegt mark undir lok fyrri hálfleiks og ef það mark hefði fengið að standa hefði það án nokkurs vafa breytt miklu í þróun leiksins.

Aldammótabörnin Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru allar frábærar í íslenska liðinu og þökkuðu þjálfaranum svo sannarlega traustið, annan leikinn í röð.

Sveindís var besti leikmaður vallarins með stoðsendingu beint úr innkasti og þar á eftir kom Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði sem djöflaðist eins og enginn væri morgundagurinn í sprækum leikmönnum Svía.

Það var margt mjög jákvætt í leik íslenska liðsins þótt ákveðnir varnarmenn liðsins hefðu mátt gera mun betur í uppspilinu. Pressan var frábær á stórum köflum og liðið stóð sig vel í að halda bolta líka. Kvennalandsliðið er á réttri leið og innkoma aldamótabarnanna á stóran þátt í því.

Þú veist að þú ert að gera eitthvað rétt þegar að þú ert svekktur með jafntefli gegn bronsliðinu frá HM í Frakklandi því með réttu hefði íslenska liðið átt að fara með sigur af hólmi í Laugardalnum í kvöld.

Heilt yfir var þetta einn besti leikur sem íslenska kvennalandsliðið hefur spilað í langan tíma og ef fram heldur sem horfir fer liðið á EM í Englandi. Landsliðsþjálfarinn Jón Þór Hauksson getur verið afar soltur af sínu liði eftir frammistöðu kvöldsins.

Ísland 1:1 Svíþjóð opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 1:1-jafntefli í hörkuleik. Íslenska Svíar sterkari í fyrri hálfleik, Ísland í þeim síðari. Jafntefli eflaust sanngjörn niðurstaða en íslenska liðið skoraði svo sannarlega mark í fyrri hálfleik sem átti allan tímann að standa.
mbl.is