Valskonur mæta Finnum eða Færeyingum

Valskonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í september 2019 og nú er komið …
Valskonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í september 2019 og nú er komið að því að þær spili í Meistaradeildinni. mbl.is/Hari

Í dag verður dregið til 1. umferðarinnar í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu hjá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, þar sem Valur er fulltrúi Íslands sem Íslandsmeistari 2019.

Valskonur eru í efri styrkleikaflokki og munu mæta annaðhvort finnsku meisturunum HJK frá Helsinki eða færeysku meisturunum KÍ frá Klaksvík. Leikinn verður einn leikur, 3. eða 4. nóvember, og dregið um hvort liðið fær heimaleik.

Fjórum Norðurlandaliðum sem leika í umferðinni var raðað saman í hóp til að einfalda ferðalögin. Vålerenga frá Noregi, sem Ingibjörg Sigurðardóttir leikur með, er með Val í efri flokknum í þessum hópi og fær sem sagt líka annaðhvort HJK eða KÍ sem mótherja.

Keppnisfyrirkomulaginu var breytt á þá leið að í stað þess að leika í fjögurra liða undanriðlum um sæti í 32ja liða úrslitunum verða nú tvær útsláttarumferðir leiknar í nóvember þar sem fjörutíu lið leika um tíu sæti í 32ja liða úrslitum. Þar hefja keppni 22 sterkustu lið Evrópu, samkvæmt styrkleikalista, en þau taka ekki þátt í tveimur fyrstu umferðunum.

mbl.is