Þær eru á réttri leið

Elín Metta Jensen og Sveindís Jane Jónsdóttir fengu úr litlu …
Elín Metta Jensen og Sveindís Jane Jónsdóttir fengu úr litlu að moða í Gautaborg í gær. Ljós­mynd/​Bild­byr­an

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu náði ekki að sýna sitt rétta andlit þegar liðið mætti Svíþjóð í uppgjöri tveggja efstu liðanna í F-riðli undankeppni EM á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg í Svíþjóð í gær.

Leiknum lauk með 2:0-sigri sænska liðsins en mörkin komu í sitthvorum hálfleiknum. Svíar tryggðu sér þar með sigur í riðlinum og sæti í lokakeppni EM á Englandi sumarið 2022.

Íslenska liðið stendur áfram ágætlega að vígi en takist því að vinna leikina tvo sem eftir eru, gegn Slóvakíu og Ungverjalandi, á það góða möguleika á að verða eitt þeirra þriggja liða sem komast beint á EM með bestan árangur í öðru sæti. Takist það ekki, bíða umspilsleikir snemma á næsta ári.

Sofia Jakobsson kom Svíþjóð yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og Olivia Schough tvöfaldaði forystu sænska liðsins á 57. mínútu þegar hún smeygði sér fram hjá þremur varnarmönnum liðsins, og þrumaði knettinum upp undir þverslána, rétt utan vítateigs.

Íslenska liðið byrjaði leikinn virkilega vel og var sterkari aðilinn fyrstu fimmtán mínútur leiksins. Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, var hugrakkur í liðsuppstillingu sinni en hann stillti Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Alexöndru Jóhannsdóttur upp saman á miðsvæðinu með landsliðsfyrirliðanum Söru Björk Gunnarsdóttur.

Stóðu undir nafni

Varnarmenn liðsins voru hins vegar ragir, mestallan leikinn, við að koma boltanum á miðjumenn liðsins og þótt liðið hafi gert ágætlega í að spila sig út úr fyrstu pressu tókst íslenska liðinu nánast aldrei að spila sig út úr annarri pressu sænska liðsins. Þar af leiðandi var íslenska liðið mikið að reyna langa bolta fram sem varnarmenn sænska liðsins réðu mjög auðveldlega við.

Hafa ber í huga að stelpurnar voru að mæta bronsliði HM 2019 og Svíarnir mættu talsvert betur undirbúnir til leiks í gær en á Laugardalsvöll 22. september síðastliðinn þegar liðin gerðu 1:1-jafntefli.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert